Páfa fagnað í Barcelona

Sagrada Familia
Sagrada Familia Reuters

Benedikt XVI páfi er kominn til Barcelona þar sem hann mun helga dómkirkju borgarinnar, Sagrada Familia, á morgun. Fyrr í dag söng han messu í Santiago de Compostela þar sem bað Evrópu að snúa bökum saman með Guði.

Þúsundir eru í nágrenni Episcopal Palace þar sem pófi gistir í nótt og kalla „Benedicto" og „Viva el Papa"

Í frétt sem Bogi Þór Arasonskrifar í Morgunblaðinu í dag kemur fram að arkitektar, sem vinna við að ljúka við byggingu Sagrada Familia, vona að hægt verði að ljúka byggingu kirkjunnar eftir um það bil fimmtán ár en 128 ár eru liðin frá því verkið hófst. Kirkjan er meistaraverk arkitektsins Antonis Gaudis, glæsilegasta og þekktasta ófullgerða kirkja í heiminum og orðin að tákni Barcelonaborgar.

Miklu verki er enn ólokið. Meðal annars á að reisa tíu turna til viðbótar, meðal annars 170 metra háan aðalturn með krossi, nýja framhlið og skrúðhús.

Lokið var við aðalkirkjuskipið fyrr á árinu og eftir að páfi hefur helgað það á morgun verður hægt að halda þar daglegar messur í fyrsta skipti frá því að hornsteinn var lagður að kirkjunni 19. mars 1882. Messur hafa verið haldnar í neðanjarðarhvelfingu kirkjunnar þar sem bein Gaudis hvíla.

Í aðalkirkjuskipinu er m.a. 7,5 tonna þungt steinaltari og orgel með 1.492 pípur. Leikið verður á orgelið við athöfnina á morgun og þrír kórar með alls 800 söngvara eiga að syngja fyrir páfa og um 6.500 gesti.

Þegar hafa verið reistir átta mósaíkskreyttir turnar á tveimur hliðum. Önnur þeirra er helguð fæðingu Jesú og hin píslarsögunni. Arkitektar vona að hægt verði að ljúka við nýja framhlið kirkjunnar, Dýrðarhliðina, fyrir hundrað ára ártíð Gaudis sem lést í sporvagnaslysi 10. júní 1926. Það ræðst þó að miklu leyti af fjármögnuninni sem byggist eingöngu á frjálsum framlögum og tekjum af ferðafólki.

Á vef verkefnisins, www.sagradafamilia.cat, segir að við framkvæmdirnar sé stuðst við upphaflegar teikningar Gaudis. Ekki eru þó allir á sama máli. „Ég tel að verk Gaudis sé það sem laðar ferðamennina að kirkjunni,“ segir Ramon Garcia-Bragado, aðstoðarborgarstjóri Barcelona. „Og það sem þeir eru að gera núna er ekki verk Gaudis, heldur þeirra sem koma á eftir honum. Arkitektar verkefnisins túlka verk Gaudis. Mjög umdeilt er hvort það sé rétt að halda byggingu kirkjunnar áfram.“

Felipe prins og Leticia, prinsessa voru meðal þeirra sem hlýddu …
Felipe prins og Leticia, prinsessa voru meðal þeirra sem hlýddu á messu páfa í dag. Reuters
Fjöldi presta var fyrir utan dómkirkjuna í Santiago de Compostela …
Fjöldi presta var fyrir utan dómkirkjuna í Santiago de Compostela er páfi söng messu þar fyrr í dag Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert