Íranar og Rússar deila hart

Dmiítrí Medvedev (lengst t.v.) og Mahmoud Ahmadinejad (lengst t.h.) í …
Dmiítrí Medvedev (lengst t.v.) og Mahmoud Ahmadinejad (lengst t.h.) í Bakú í dag á fundi ríkja við Kaspíahaf. Reuters

Ljóst er að hart hefur verið deilt á fundi forseta Írans og Rússlands, þeirra Mahmouds Ahmadinejads og Dímítrís Medvedvs, í dag í Bakú í Azerbadzhan. Sagt er í frétt AFP-fréttastofunnar að svo virðist sem tveggja áratuga stuðningur Rússa við ráðamenn í Teheran geti verið á enda. Til þess er tekið að rússneskir fjölmiðlar fengu nær ekkert að vita um fundinn, aðeins að hann hefði farið fram.

 Sjónvarpsstöðvar sýndu mynd af leiðtogunum en án hljóðs, Ahmadnejad brosti en Medvedev var grafalvarlegur. Rússar hafa árum saman reynt að bregða skildi fyrir Írana í deilunum við alþjóðasamfélagið vegna kjarnorkuáætlunar þeirra en stjórnvöld í Teheran eru grunuð um að nota friðsamlegar kjarnorkurannsóknir sem skálkaskjól til að smíða á laun kjarnavopn.

 Sergei Prídkhodko, einn af valdamestu ráðgjöfum ríkisstjórnar Rússlands, sagði fréttamönnum að viðræðurnar hefðu verið ,,ákaflega hreinskilnar" sem á diplómatamáli merkir að slegið hafi í brýnu. ,,Hvorki við né gagnaðilinn forðuðust að ræða erfið mál," sagði hann. ,,Forsetinn [Medvedev] lagði áherslu á mikilvægi þess að halda áfram með friðsamlega kjarnorkuáætlun Írana." Orð hans eru talin sýna að Medvedev hafi sagt Ahmadinejad að annaðhvort slökuðu Íranar til og leyfðu alþjóðlegt eftirlit með tilraunaverunum eða sættu sig við að verða algerlega einangraðir í alþjóðamálum.

Fyrir fundinn var Ahmadinejad fokreiður og sakaði Rússa um að ,,ganga í lið með fjandmönnum okkar" og taka afstöðu með ,,Satan". Íranar myndu ekki láta þvinga sig til tilslakana. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur öðru hverju samþykkt efnahagslegar refsiagerðir gegn Íran en Rússum tekist að útvatna þær verulega. Rússar eiga mikilla hagsmuna að gæta en þeir hafa reist kjarnorkutilraunaverið í Bushehr fyrir Írana og eiga mikil viðskipti við þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina