Rannsaka margar hákarlaárásir

mbl.is

Bandarískir sérfræðingar eru á leið til Egyptalands til að kanna árásir hákarla á fólk við strendur Rauðahafsins undanfarna daga. Einn ferðamaður hefur látið lífið og fjórir aðrir særst af völdum hákarlanna.

Árásirnar hafa átt sér stað á vinsælum ferðamannastað við Sharm el-Sheikh. Á sunnudaginn lést 71 árs þýskur maður er hákarl beit af honum handlegginn. Nokkrum dögum áður hafði hákarl sært þrjá Rússa og einn Úkraínumann alvarlega. 

Egypsk yfirvöld telja að ekki sé þarna sama skepnan á ferð. Dýrin voru af tegund hákarla sem halda sig aðallega úti á sjó en ekki við strendur. Eftir fyrri árásirnar var hákarlanna leitað og talið að sökudólgarnir hefðu verið drepnir. Ekki leið á löngu þar til annar ferðamaður lenti í hákarlskjafti.

Í kjölfarið leituðu egypsk ferðamálayfirvöld til bandarískra hákarlasérfræðinga.

Margar kenningar hafa komið fram um ástæður árásanna. Umhverfissinnar vilja kenna ofveiði á fiski á svæðinu um. Aðrir segja að ferðaþjónustu fyrirtæki hendi kjöti fyrir borð til að laða á hákarla svo ferðamenn geti skoðað og myndað þessar óvenjulegu skepnur.

Enn ein kenningin gengur út á að kenna bændum sem eru að flytja kvikfénað yfir hafið um árásirnar. Bændurnir kasti dauðum dýrum fyrir borð á leiðinni og laði hákarlana að ströndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert