Misheppnuð hryðjuverkaárás

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir sprengingarnar sem urðu í Stokkhólmi síðdegis í gær hafa verið hryðjuverkaárás sem mistókst. Hefði árásin heppnast hefði hún getað valdið miklum skaða og eyðileggingu. Sænskir fjölmiðlar segja að maðurinn sem lést hafi verið sjálfsvígssprengjumaður.

Lögreglan hefur aftur á móti ekki gefið neitt út enn. Hún útilokar ekki neitt en vill ekki draga neinar ályktanir að svo stöddu. Málið verði að rannsaka og ræða þurfi við fleiri sjónarvotta til að menn átti sig á hvað hafi gerst í raun og veru.

Ekki er búið að birta nafn eða upplýsingar um hinn látna. 

Bildt segir á Twitter-síðu sinni á árásin sé mikið áhyggjuefni. Einn maður lést og tveir særðust minniháttar í tveimur sprengingum í miðborginni. Fyrst sprakk bifreið við Drottningargötu, sem er ein aðalverslunargatan í Stokkhólmi. Að sögn lögreglu voru gaskútar inni í bifreiðinni sem sprakk. Þar særðust tveir.

Skömmu síðar varð önnur sprenging skammt frá. Þar fannst tilræðismaðurinn látinn.

Fréttastofan TT segist hafa fengið hótun senda í tölvupósti rétt áður en sprengingarnar urðu. Þar var kallað eftir því að íslamskir stríðsmenn rísi á fætur í Svíþjóð og Evrópu.

Svíum var m.a. hótað vegna skopmynda sem Svíinn Lars Vilks teiknaði af Múhameð spámanni og vegna veru sænska hersins í Afganistan, en Svíar eru með 500 manna herlið í landinu. Var Svíum lofað að þeir myndu „deyja líkt og bræður okkar og systur“.

Í nóvember sl. hækkuðu sænsk yfirvöld viðbúnaðarstig vegna mögulegrar hryðjuverkahættu úr lágu í aukið en yfirvöld höfðu fengið upplýsingar um að hópar í Svíþjóð væru að undirbúa árásir.

Fjölmargir voru á ferli í Stokkhólmi í gær þegar sprengingarnar urðu.

Sænska dagblaðið Aftonbladet segir að árásarmaðurinn hafi verið með rörasprengjur og bakpoka sem var fullur af nöglum.  

Að sögn sjónarvotta var maðurinn sem lést með kviðáverka. Einn maður, sem er þjálfaður sjúkraliði, segir að útlit hafi verið fyrir að eitthvað hafi sprungið í maga mannsins. Hinn látni hafi ekki verið með áverka á andliti eða annars staðar á líkamanum. Þá hafi ekki verið miklar skemmdir á nærliggjandi verslunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina