Vísað úr landi vegna njósna

Ríkisstjórn Spánar á fundi í Madrid.
Ríkisstjórn Spánar á fundi í Madrid. Reuters

Spænsk yfirvöld vísuðu tveimur rússneskum diplómötum úr landi í nóvember vegna njósna. Að sögn spænska utanríkisráðuneytisins svöruðu Rússar í sömu mynt með því að vísa tveimur spænskum ríkiserindrekum í Rússlandi úr landi.

Talsmaður spænska utanríkisráðuneytisins vildi ekki tjá sig um fréttir þess efnis að Rússar hafi stundað viðskiptanjósnir á Spáni, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Segir að málið hafi vakið mikla athygli, ekki síst í ljósi þess að Rússar munu brátt fagna „Ári Spánar“ og Spánverjar „Ári Rússlands“. Spænska dagblaðið El Pais segir að ríkisstjórn landsins hafi ekki viljað greina frá brottvísununum til að spilla ekki fyrir fyrirhuguðum hátíðarhöldum í löndunum.

Að sögn ríkisstjórna landanna hefur málið verið leyst og er unnið að því að finna arftaka diplómatanna sem var vísað úr landi.

Málið er það alvarlegasta sem hefur komið í upp í samskiptum ríkjanna frá því Rússar endurnýjuðu tengsl sín við Spánarstjórn árið 1977, eftir dauða einræðisherrans Francisco Franco.

Ekki hefur verið hætt við opinbera heimsókn Trinidad Jimenez, utanríkisráðherra Spánar, til Rússlands, en hann er væntanlegur til Moskvu 17. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina