Flóð hækka kola- og stálverð

Umferðarskilti á kafi í borginni Rockhampton í Queensland.
Umferðarskilti á kafi í borginni Rockhampton í Queensland. Reuters

Flóðin í Queenslandríki í Ástralíu munu hafa veruleg áhrif á stáliðnaðinn. Ástralar flytja út mikið af kolum sem fara til notkunar í stáliðjuverum en nú er ljóst að mikil röskun verður á útflutningi á kolum frá landinu. Verð á kolum hefur hækkað en það þýðir aftur verðhækkanir á stáli.

Þetta kom fram í máli Önnu Bligh, ríkisstjóra Queensland, en kolagröftur liggur nú niðri í þremur af hverjum fjórum kolanámum þessa víðfeðma ríki. Skipta námurnar tugum.

Verð á tonni af kolum frá Queensland sem notuð eru við stálbræðslu hefur hækkað úr 225 bandaríkjadölum í 253 dali tonnið. 

Breska útvarpið, BBC, gerir málinu skil en á vef þess er rætt við Grant Craighead, greinanda hjá fyrirtækinu Stock Resource í Sydney, sem telur að verðið á kolum muni hækka enn.

Kol gegna mikilvægu hlutverki við stálbræðslu og mun verð á stáli því hækka í kjölfarið, með tilheyrandi áhrifum á verðlag á ýmsum framleiðsluvörum úr stáli. 

Þá er talið að áhrif flóðanna í Queensland og úrhellis í öðrum ríkjum Ástralíu muni koma niður á hveitirækt í landinu og þar með leiða til verðhækkana á hveiti. Grannt er fylgst með þróuninni, enda er Ástralía fjórði mesti hveitiútflytjandi heims.

Borgin Bundaberg er undir vatni.
Borgin Bundaberg er undir vatni. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert