Ekkert bítur á Berlusconi

Silvio Berlusconi
Silvio Berlusconi Reuters

Hneykslismál í kringum Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, virðast ekki hafa mikil áhrif á ítalska kjósendur. Í nýrri skoðanakönnun sem birt var í dag kemur í ljós að flokkur Berlusconis bætir við sig fylgi frá fyrri mánuði og innan við helmingur aðspurðra telur að hann ætti að segja af sér.

Það var dagblaðið Corriere della Sera sem gerði könnunina í síðustu viku en þá voru niðurstöður rannsóknar saksóknara í Mílanó á málum forsætisráðherrans ræddar sem aldrei fyrr. Þar koma fram ásakanir meints þátttakanda í samkvæmi sem Berlusconi á að hafa haldið með yfir tuttugu konum sem leystist upp í kynsvall. Þá er hann sakaður um að hafa borgað ólögráða vændiskonu og reynt að þagga það niður með því að beita lögregluna þrýstingi.

Í könnuninni kemur fram að ef kosningar færu fram núna myndi yfir 30% kjósenda kjósa flokk forsætisráðherrans en í desember mældist fylgið 28%. Þá myndu frelsisflokkur Berlusconis og Norðurbandalagið, aðalsamstarfsflokkurinn, fá samanlagt 41%. 

Þetta var hins vegar í fyrsta skipti sem fleiri vildu að Berlusconi segði af sér en þeir sem vildu það ekki. Hins vegar eru það aðeins 49% kjósenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina