Teboðshreyfingin hjólar í brjóstagjafir

Herferð Michelle Obama, forsetafrúar Bandaríkjanna, til að hvetja bandarískar mæður til brjóstagjafa er nýjasti skotspónn Teboðshreyfingarinnar með Söruh Palin í fararbroddi. Gagnrýnir Palin skattaívilnanir til mæðra sem kaupa sér brjóstapumpur.

Sarah Palin og Michele Bachmann, annar áberandi leiðtogi hinnar öfgahægrisinnuðu Teboðshreyfingar, hafa gert óspart grín að Obama fyrir átak hennar fyrir brjóstagjafir. Í vikunni var samþykkt að mæður sem kaupa brjóstapumpur fái sérstakar skattaívilnanir frá ríkinu. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.

„Ég hef eignast fimm börn og gefið þeim öllum á brjóst. Ímyndið ykkur að ríkisstjórnin þurfi að fara og kaupa brjóstapumpur handa mér fyrir börnin mín. Þvílík fyrirhyggja! Ég held að þetta sé ný skilgreining á henni,“ sagði Bachmann í útvarpsspjallþætti.

Palin lét heldur ekki sitt eftir liggja. „Það er ekki að undra að Michelle Obama sé að segja öllum að það sé best fyrir þá að gefa börnum sínum á brjóst. Já, það er best fyrir ykkur, því mjólkurverð er orðið svo hátt núna!“

Átak forsetafrúarinnar er liður í baráttu hennar gegn offitu barna. Hefur átak hennar leitt til ýmissa aðgerðar frá ríkisstjórn eiginmanns hennar til þess að auðvelda mæðrum brjóstagjafir eins og með því að skylda atvinnurekendur til að sjá þeim fyrir tíma og aðstöðu til að gefa börnum sínum á brjóst í vinnunni.

Brjóstagjafir eru sagðar góð vernd fyrir ofnæmi, astma auk annarra kvilla. Þá eru þær taldar geta unnið gegn offitu barna sem er vaxandi vandamál vestanhafs.

Sarah Palin gerir grín að brjóstagjafaátaki Michelle Obama.
Sarah Palin gerir grín að brjóstagjafaátaki Michelle Obama.
mbl.is

Bloggað um fréttina