Skiptar skoðanir á Trump

Donald Trump.
Donald Trump. Reuters

Bandaríski auðkýfingurinn Donald Trump nýtur nú meira fylgis sem hugsanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum 2012 en margir reyndir stjórnmálamenn. Ekki eru þó allir Repúblikanar hrifnir af hugsanlegu framboði hans.

Fylgi við hugsanlegt framboð Trumps mælist nú 19%, það er talsvert hærra en fylgi reyndra stjórnmálamanna eins og Söruh Palin, sem mælist með 12% fylgi og fyrrum ríkisstjóra Massachusetts, Mitt Romney sem mælist með  11%.

Stefna Trumps einkennist fyrst og fremst af einangrunarstefnu á alþjóðavettvangi. í viðtali sagði hann að hann hefði einungis áhuga á Líbíu „ef við tökum olíuna þeirra“. Hann segir Bandaríkjamenn vera athlægi annarra þjóða, ef hann væri forseti myndi hann „taka hundruð milljarða frá löndum sem fara illa með okkur.“

Óbeit á Barack Obama Bandaríkjaforseta hefur einnig einkennt málflutning Trumps, en hann hefur farið mikinn í að efast um ríkisborgararétt forsetans.

Hann hefur getið sér frægðarorð fyrir flest annað en afskipti af stjórnmálum og margir Repúblikanar eru lítt hrifnir af þessu uppátæki hans, en fleiri en fjórir af hverjum tíu Repúblikönum segjast ekki vilja sjá hann sem forsetaframbjóðanda flokksins í kosningunum á næsta ári.

Hinn 64 ára gamli Trump er gífurlega auðugur og eru eignir hans taldar nema 2,7 milljörðum Bandaríkjadollara. Þrátt fyrir það segist hann ætla að safna fé til kosningbaráttunnar, eins og aðrir frambjóðendur, en útilokar ekki að hann muni einnig seilast í eigin vasa.

Talið er að það muni kosta væntanlega forsetaframbjóðendur einn milljarð Bandaríkjadollara að bjóða sig fram.

„Auðæfi mín eru hluti af fegurð minni, sagði Trump í bandaríska sjónvarpsþættinum Good Morning in America.

Margir stjórnmálaskýrendur segjast efast um að Trump sé alvara með framboðstali sínu, hann sé einungis að sækjast eftir athygli og sé að reyna að koma nýjum raunveruleikaþætti sínum á framfæri.

En hann hefur sagt að fái hann ekki stuðning frá Repúblikanaflokknum, muni hann bjóða sig fram utan flokka. Það gæti valdið usla í röðum Repúblikana, sem þurfa á öllum sínum styrk að halda til að eiga roð í Obama á næsta ári.

Í Hvíta húsinu virðast menn ekki hafa miklar áhyggjur af hugsanlegum móframbjóðenda. „Ég held að það séu engar líkur á því að bandaríska þjóðin ráði Donald Trump í embætti forseta," sagði David Plouffe, einn ráðgjafa Obama.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert