Hótaði „kjarnorkuvítislogum" í Evrópu

Teikning af Kahlid Sheikh Mohammed fyrir herrétti árið 2008.
Teikning af Kahlid Sheikh Mohammed fyrir herrétti árið 2008. Reuters

Heilinn á bak við hryðjuverkaárásirnar 11. September fullyrti að Al-Qaeda hefði komið leyndum kjarnorkusprengjum fyrir í Evrópu sem myndu valda því að álfan logaði í „kjarnorkuvítislogum" ef Osama bin Laden yrði handtekinn. Þetta kemur fram í skjölum sem Wikileaks birtir í dag.

Þar segir einnig að Al-Qaeda hafi skipulagt árás áþekka þeim 11. september á Heathrow flugvöll í London, með því að ræna farþegaþotu og láta hana hrapa á flugstöðvarbygginguna. Khalid Sheikh Mohammed sagði við yfirheyrslur í Guantanamo fangabúðunum að kjarnorkusprengjurnar í Evrópu yrðu sprengdar ef foringi þeirra, bin Laden, næðis eða yrði drepinn.

Sheikh Mohammed hefur sjálfur játað því að hafa skipulagt árásirnar þann 11. september. Hann hefur verið í haldi í Guantanamo síðan árið 2006 og bíður réttarhalda. Í skjölunum segir að hann hafi einnig játað að hafa persónulega afhöfðað bandaríska blaðamanninn Daniel Pearl árið 2002 og hafa tekið þátt í sprengjuárásinni á World Trade Center árið 1993, þar sem sex manns féllu.

Þýska vikublaðið Der Spiegel er meðal þeirra blaða sem greina frá þessu í dag, en þar er jafnframt settur fyrirvari við játningar Sheikh Mohammed og minnt á að hann hafi verið beittur hinum alræmdu vatnspyntingum í Guantanamo og því hugsanleg að falskar játningarnar hafi verið þvingaðar fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert