Danska loftrýmið opið að nýju

Farþegar á Landvetterflugvelli í Gautaborg fylgjast með flugupplýsingum.
Farþegar á Landvetterflugvelli í Gautaborg fylgjast með flugupplýsingum. Reuters

Dönsk flugmálayfirvöld afléttu í morgun öllum takmörkunum á flugi í loftrýminu en hluta þess var lokað í gær vegna ösku frá Grímsvatnagosinu. Öskuský eru enn yfir Norðurlöndum en valda litlum truflunum á flugumferð.

Danska loftrýmið yfir Norðursjó og Skagerak og norðurhluta Jótlands var opnað að nýju á miðnætti en það var lokað upp í 6 km hæð. Talsmaður Naviair, dönsku flugmálastjórnarinnar, sagði að engin aska væri lengur í lofrýminu.

Enn eru svæði yfir Grænlandi lokuð því aska er þar enn.  

Norsk stjórnvöld segja, að flugsamgöngur séu komnar í eðlilegt horf þar nema við Svalbarða. Öskuský er enn á Barentshafi milli Svalbarða og meginlands Noregs. 

Öskuskýið kom yfir vesturströnd Svíþjóðar í gærkvöldi og þurfti að aflýsa nokkrum flugferðum til og frá Landvetterflugvelli í Gautaborg. Öskuský er nú yfir sænsku eyjunum Ölandi og Gotlandi en búist er við að askan verði horfin úr sænsku loftrými um hádegisbil.

mbl.is