Fáir Svisslendingar vilja í ESB

Svissneski fáninn.
Svissneski fáninn. Reuters

Einungis 19% Svisslendinga vilja ganga í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar þar í landi, en stuðningur við aðild að sambandinu hefur dregist verulega saman undanfarinn áratug. Á síðasta ári vildi tæpur þriðjungur ganga í ESB.

Á hinn bóginn sögðust 77% svissneskra kjósenda vilja sjá nánari efnahagssamvinnu við ESB samkvæmt könnuninni sem gerð var á vegum Tæknistofnunar Sviss.

Þá er stuðningur við hlutleysisstefnu Sviss enn mjög mikill eða 94%. Um 84% töldu framtíð landsins bjarta, sem er aukning um 15% frá síðasta ári, og 90% sögðust telja að Sviss væri öruggt land.

mbl.is