Átta vikna gæsluvarðhald

Dómstóll í Ósló úrskurðaði í dag, að Anders Behring Breivik skuli sæta gæsluvarðhaldi í átta vikur að kröfu norsku lögreglunnar.  Þá mun Breivik sæta einangrun næstu fjórar vikur.

Fram kom í dómsorðinu, sem Kim Heger, dómari, las fyrir fréttamenn, að Breivik er grunaður um  fjölda brota á hryðjuverkalögum og hegningarlögum. Í úrskurðinum segir, að Breivik hafi fyrir dómi játað að hafa staðið fyrir sprengjuárás í miðborg Óslóar á föstudag og skotárás á Utøya. Hann hafi hins vegar ekki játað sig sekan á þeirri forsendu, að hann hafi talið sig tilneyddan til að grípa til þessara aðgerða til að bjarga Noregi og hinum vestræna heimi frá menningarmarxisma og yfirtöku múslima.

Þá kom fram, að Breivik sagði það ekki hafa verið markmið sitt að drepa sem flesta heldur koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. Þá telji hann að norski Verkamannaflokkurinn hafi svikið fólkið og þetta hafi verið gjaldið sem flokkurinn þurfti að greiða fyrir þessi landráð.

„Fyrst Verkamannaflokkurinn fylgir þeirri hugmyndafræðilegu stefnu, sem hann gerir, og heldur áfram að afbyggja norska menningu og flytja inn múslima í stórum stíl, þá verður flokkurinn að axla ábyrgð á því ódæði. Enginn ærlegur maður getur horft aðgerðalaus upp á landið sitt verða að nýlendu múslima," var haft eftir Breivik í úrskurðinum. 

Fram kemur, að Breivik hafi veitt skýringar í yfirheyrslum og fyrir dómi, sem krefjist frekari rannsóknar. Meðal annars eigi þetta við um yfirlýsingar um að það séu „tvær sellur í samtökum okkar." Tryggja verði, að Breivik geti ekki haft áhrif á þá rannsókn með neinum hætti.  

Breivik óskaði eftir því að fá að koma fyrir dóminn í einhverskonar einkennisbúningi en því var hafnað. Þess í stað var hann í rauðum samfestingi, ef marka má myndir sem tekjar voru af honum í bílnum sem flutti hann milli fangelsisins og dómhússins.

Vefur héraðsdóms Óslóar

Anders Behring Breivik situr við hlið lögreglumanns í aftursæti bíls …
Anders Behring Breivik situr við hlið lögreglumanns í aftursæti bíls sem flutti hann frá dómhúsinu til fangelsisins. REUTERS/Jon-Are Berg-Jacobsen/Aftenposten via Scanpix
Breivik fluttur frá dómhúsinu í Ósló í dag.
Breivik fluttur frá dómhúsinu í Ósló í dag. Reuters
Anders Behring Breivik situr í aftursæti lögreglubíls í Ósló í …
Anders Behring Breivik situr í aftursæti lögreglubíls í Ósló í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina