Fréttaskýring: Lifði í ímynduðum heimi

Breivik fluttur úr Ila fangelsinu í Bærum til aðallögreglustöðvarinnar í ...
Breivik fluttur úr Ila fangelsinu í Bærum til aðallögreglustöðvarinnar í Ósló til yfirheyrslu í gær. Reuters

Í hugarheimi Anders Behrings Breiviks var hann næstum búinn að tryggja sér sæti í borgarstjórn Óslóar fyrir Framfaraflokkinn þar til öfundsjúkur keppinautur bolaði honum út. „Þvættingur" segir hinn meinti keppinautur sem segir að Breivik hafi aðeins setið 5-6 fundi á vegum flokksins og oftast þagað.

Breivik skrifar einnig, að þegar hann var rúmlega tvítugur hafi hann í heilt ár notið tilsagnar manns, sem kenndi honum margt í tengslum við viðskipti og verslun. Umræddur maður segir að þetta sé alls ekki í samræmi við raunveruleikann og það eina sem hann kenndi Breivik hafi verið að skrifa fundargerðir.

Margt bendir til þess að Breivik hafi lifað í ímynduðum heimi því margt sem hann segir um ævi sína í 1518 blaðsíðna langri stefnuskrá stenst ekki þegar betur er að gáð. Stefnuskrána sendi hann í tölvupósti til hundruða viðtakenda víðsvegar um Evrópu áður en hann lét til skarar skríða fyrir rúmri viku og myrti 77 í Ósló á Utøya.

Rappari og veggjakrotari

En þau ævisögubrot, sem virðast vera sannleikanum samkvæm, valda þó meiri áhyggjum.

Breivik segist hafa verið hugfanginn af hipp-hopp tónlist og veggjakroti sem unglingur og laumast út  á nóttinni og krotað á byggingar í Ósló undir nafninu Morg. En síðan segist hann hafa ákveðið að snúa við blaðinu og gerast krossfari og bjarga þjóðfélagi sem stefndi í glötun.

Fyrrum vinir Breivik staðfesta, að hann hafi lent í vandræðum sem unglingur. En þeir rifja einnig upp, að Breivik hafi oft stigið fram og komið í veg fyrir að vinsælustu krakkarnir í bekknum stríddu þeim sem voru minnimáttar.

Hann er sagður hafa verið nokkuð sérstakur og lítið viljað tala um sjálfan sig en verið tilbúinn til að hlusta á aðra ræða um vandamál sín.

„Ef einhver var að hrekkja mig kom hann alltaf til hjálpar og ég held að honum hafi fundist hann vera að vernda okkur," segir Caroline Fronth, sem var bekkjarsystir Breiviks í unglingaskóla. „Hann var að leita að sjálfum sér eins og við vorum öll að gera í bekknum... og það er svo hræðilegt vegna þess að hann fann leið. En það var röng leið. Það var hryllileg leið."

9 ára undirbúningur

Breivik segist í stefnuskránni hafa verið í nærri níu ár að undirbúa hryðjuverkaárásirnar. Lögregla segist ekki hafa séð neinar vísbendingar um að árásirnar séu hluti af stærra samsæri og Breivik virðist ekki hafa trúað neinum fyrir því sem hann ætlaðist fyrir.

Breivik skrifar, að þegar hann var 15 ára hafi hópar múslima oft hótað honum og bekkjarfélögum hans og að hann hafi boðið þeim birginn. Þetta er erfitt að fá staðfest en Breivik segir, að þetta hafi mótað skoðanir hans á múslinum.

Í stefnuskránni lýsir Breivik átta atvikum þegar hann lenti í útistöðum við múslima. Hann segir, að þegar hann var 17 ára hafi hann verið í samkvæmi í Tasen þegar fréttist að múslimahópur hefði lamið yngri bróður eins vinar hans.

„Við ákváðum að reka þá út úr hverfinu. Þeir voru vopnaðir, við vorum vopnaðir. Ég var barinn í höfuðið með billjardkjuða. Niðurstaða bardagans: Við gerðum við þá samning. Þeir lofuðu að þeir myndu aldrei koma og áreita unglingana í Tasen aftur," skrifar Breivik.

Ýkti árangurinn

Eftir að Breivik lauk menntaskólanámi vann hann ýmis störf, svo sem í banka og við að svara í síma. Hann virðist í stefnuskránni gera mun meira úr starfsþjálfun sinni og árangri en efni standa til.

Hann segist hafa unnið árin 2000 og 2001 við hlið Richards Steenfeldts Bergs, sem hann kallar læriföður sinn. Segist Breivik hafa starfað sem ráðgjafi í fyrirtæki Bergs, Hypertec AS, og að Berg hafi þjálfað hann í stjórnun og viðskiptum.

Berg segir hins vegar,  að þeir hafi aðeins þekkst í nokkra mánuði og að Breivik hafi komið nokkrum sinnum á skrifstofu hans.  Segist Berg hafa þótt Breivik einkennilegur.

„Jú, ég hitti þetta skrímsli fyrir 11 árum. Nei, ég kenndi honum ekki neitt en ég gaf honum nokkur ráð um hvernig ætti að skrifa fundargerðir," segir Berg á Facebook-vef sínum. „Nei, ég hef aldrei verið neinskonar lærifaðir hans."

Í framboði - eða ekki

Breivik segir, að tveimur árum síðar hafi Framfaraflokkurinn sett hann á framboðslista í borgarstjórnarkosningum í Ósló og hann hafi verið nálægt kjöri. En „keppinautur" hans sem hann kallar svo, Joran Kallmyr, sem þá var leiðtogi ungliðahreyfingar Framfaraflokksins, hafi komið í veg fyrir að hann næði frama í stjórnmálum.

„Ég man varla eftir honum," segir Kallmyr, sem nú er aðstoðarborgarstjóri í Ósló. Hann segir, að Breivik hafi sótt 5-6 fundi í ungliðahreyfingunni og ekki skorið sig úr fjöldanum að öðru leyti en því, að hann var með hálsbindi.

„Ég held að ég hafi talað við hann. Ég man að við töluðum eitthvað um fyrirtækið hans," segir Kallmyr.

Stofnaði fyrirtæki 23 ára

Breivik skrifar að hann hafi stofnað fyrsta fyrirtækið sitt, hugbúnaðarþjónustu, árið 2002, þá 23 ára gamall. Hann segist hafa byrjað á sama tíma að undirbúa róttækar aðgerðir þar sem hann taldi fullreynt, að hann næði ekki árangri með hefðbundnum pólitískum aðferðum.

Þremur árum síðar hafði fyrirtækið vaxið og þar störfuðu 7 manns. Breivik segist hafa notað fyrirtækið sem lepp til að geta fjármagnað „hernaðaraðgerðir" sínar.

Breivik segir, að vinir hans hafi sýnt honum virðingu vegna þess hve fyrirtækið gekk vel. Þannig hafi hann átt 4 milljónir norskra króna, 85 milljónir íslenskra króna á núverandi gengi, árið 2005 þegar hann var 26 ára.

„Ég held að aðeins innan við fimm einstaklingar hafi náð jafn góðum árangri svona ungir í landinu," skrifar hann.

Norskar álagningarskrár sýna, að tekjur Breiviks voru aðeins jafnvirði um 112 þúsund króna á árunum 2006 og 2007. Þá neyddist hann til að loka fyrirtækinu árið 2007 vegna samdráttarskeiðs.

Á skotæfingum

Í maí 2009 stofnaði Breivik fyrirtækið Breivik Geofarm en skráður tilgangur þess var að rækta grænmeti, melónur og rótarávexti. Nafn fyrirtækisins er enn á dyrabjöllunni á íbúð móður Breiviks í Ósló.

Á þessum tíma var áætlun Breiviks komin vel á veg. Hann endurnýjaði aðild sína að byssuklúbbi í Ósló í júní á síðasta ári en þar er hægt að æfa skotfimi í skógi utan við Ósló.

Klúbburinn segir á vef sínum, að Breivik hafi áður verið félagi á árunum 2005 til 2007. Strangar reglur gilda um byssueign í Noregi, sem er tiltölulega algeng vegna þess að margir leggja stund á veiðar.

Klúbburinn, eins og aðrir svipaðir klúbbar, stundar ekki eftirlit með því hvort væntanlegir félagar séu heppilegir byssueigendur," segir á vef klúbbsins. Þar kemur einnig fram, að Breivik tók þátt í 13 skipulögðum æfingum og einni skotkeppni eftir að hann gekk aftur í klúbbinn í fyrra.

Breivik notaði fyrirtækið Geofarm sem skálkaskjól til að kaupa áburð og önnur efni sem þurfti til að útbúa sprengjuna, sem sprakk í miðborg Óslóar 22. júlí. Hann notaði tvær byssur til að skjóta 68 manns, aðallega unglinga, á Utøya. Norska lögreglan segir, að hann hafi keypt báðar byssurnar með löglegum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina