Viðbrögðin voru vísitölufall

Angela Merkel og Nicolas Sarkozy á blaðamannafundi í Elysee-höll.
Angela Merkel og Nicolas Sarkozy á blaðamannafundi í Elysee-höll. Reuters

Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum féll nokkuð eftir að fréttir bárust af fundi Þýskalandskanslara og Frakklandsforseta í dag en eftir fundinn voru ekki tilkynntar beinharðar aðgerðir til að bregðast við skuldavanda evrusvæðisins.

Þau sögðust hins vegar ætla að tryggja raunverulega efnahagsstjórn og lögðu til að myndað yrði efnahagsráð evrusvæðisins, undir forystu forseta ráðherraráðs ESB.

Efnahagsráð undir forystu forseta ráðherraráðsins

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sögðust eftir um tveggja klukkustunda viðræður, ætla að leggja til að skattur yrði lagður á fjármálagerninga í Evrópusambandsríkjunum. Einnig að myndað yrði efnahagsráð þar sem leiðtogar evruríkjanna myndu hittast tvisvar á ári undir forsæti forseta ráðherraráðs ESB. Með þessu yrði til sönn efnahagsstjórn á evru-svæðinu. Sarkozy sagði að framundan væri meiri efnahagslegur samruni evrusvæðisins.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði tillögu Sarkozy og Merkel um stofnun efnahagsráðs evrusvæðanna vera mikilvægt framlag leiðtoga helstu efnahagsvelda ESB.

Ættu að samþykkja lög um jafnvægi í ríkisfjármálum


Hvorki Merkel né Sarkozy studdu hugmyndir um evruskuldabréf en með útgáfu þeirra myndu evruríkin í sameiningu bera ábyrgð á skuldum hvert annars. Þá sögðu þau að björgunarsjóður ESB, sem í eru 440 milljarðar evra, væri nægilega gildur. Á hinn bóginn boðuðu þau að aðildarríki yrðu að uppfylla strangari kröfur um heilbrigð ríkisfjármál. Sarkozy sagði að öll evruríkin ættu að samþykkja löggjöf um að jafnvægi yrði á tekjum og útgjöldum ríkisins, líkt og kveðið er á um í þýsku stjórnarskránni. Þá yrði sameiginleg tillaga fjármálaráðherra Þýskalands og Frakklands um skatt á fjármálagerninga fljótlega lögð fram í Brussel.

Mikil eftirvænting ríkti á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum vegna fundar Merkel og Sarkozy en fréttir af fundunum eru sagðar hafa orðið til þess að vísitölur lækkuðu í Bandaríkjunum. Vestanhafs féll Dow Jones um 0,67%, S&P um 1% og Nasdaq um 1,24%.

mbl.is

Bloggað um fréttina