Tékkum liggur ekki á að taka upp evru

Vaclav Klaus, forseti Tékklands.
Vaclav Klaus, forseti Tékklands.

Forseti Tékklands, Vaclav Klaus, segir landi sínu ekki liggja á að verða hluti af evrusvæðinu á meðan það glímir við erfiðan efnahagsvanda. Þá lagði hann til að fækkað yrði ríkjum sem aðild eigi að svæðinu. Þetta kemur fram á fréttasíðu bandaríska dagblaðsins Washington Post.

Klaus sagði vanda evrusvæðisins grundvallast á gríðarlegu efnahagslegu ósamræmi á milli evruríkjanna sem væru nú „föst í spennitreyju hins sameiginlega gjaldmiðils.“ Hann sagði lausn vandans annaðhvort felast í því að evruríkjunum yrði fækkað eða því að koma á „harkalegri samlögun“ á milli þeirra. Sjálfur sagðist hann fremur vilja fyrri kostinn.

Klaus, sem verið hefur mjög gagnrýninn á Evrópusambandið í gegnum tíðina, sagði að við núverandi aðstæður væri ekki á dagskrá að Tékkland gerðist aðili að evrusvæðinu. Tékkar eru þó skuldbundnir til þess að taka upp evruna samkvæmt aðildarsamningi sínum en öll ný ríki ESB skuldbinda sig til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert