Ætlaði að ráðast á Önnu Lindh

Mijailos Mijailovic.
Mijailos Mijailovic.

Mijailo Mijailovic, sem myrti Önnu Lindh, þáverandi utanríkisráðherra Svía fyrir átta árum, segist í viðtali við sænska blaðið Expressen í dag hafa ætlað sér að ráðast á Lindh. Þetta stangast á við það sem hann sagði í réttarhöldunum yfir honum.

„Ég stóð kyrr um stund og bjó mig undir það sem ég þurfti að gera. Síðan gekk ég á eftir þeim inn í NK og byrjaði að leita," segir Mijailovic í viðtalinu um það augnablik þegar hann sá Önnu Lindh og Evu Franchell, blaðafulltrúa hennar, ganga inn í verslunina NK í miðborg Stokkhólms.

Hann segist síðan hafa leitað að Lindh inni í NK og þegar hann sá hana réðist hann á hana með hníf að vopni. Lindh var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést morguninn eftir, 11. september 2003.

Í réttarhöldunum sagðist Mijailovic hins vegar hafa séð utanríkisráðherrann fyrst inni í verslunarhúsinu, utan við verslun Filippu K, og að raddir í höfði hans hafi skipað honum að ráðast á hana. Hvorki lögregla né dómarar lögðu trúnað á þennan framburð og Mijailovic var dæmdur í ævilangt fangelsi.

Mijailovic er 32 ára, fæddur í Svíþjóð en foreldrar hans voru serbneskir innflytjendur. Hann segir í viðtalinu, að hann hafi ekki ráðist á Lindh vegna þess að hún studdi loftárásir NATO á Serbíu. Það hafi í raun verið tilviljun að hann réðist á Lindh en ekki einhvern annan þekktan sænskan stjórnmálamann. Hann segist hafa hatað bæði sænska og serbneska stjórnmálamenn og talið að þeir hafi brugðist sér.

„Ég hugsaði: Nú sá ég stjórnmálamann. Þeir skulu - þeir skulu fá að kenna á því nú. Ég var á atvinnuleysisbótum og fékk sjúkradagpeninga, var án menntunar og framtíðar. Ég var maður sem ekki var í starfi, átti ekki bíl eða vini, átti ekki möguleika," sagði hann.

„Ég taldi, að stjórnmálamenn væru rót alls ills, að þeir tækju ákvarðanir um líf manns og að maður yrði að dansa eftir þeirra höfði." 

Mijailovic segist ekki vilja beina neinum orðum til barna Önnu Lindh, segir að það væri ósmekklegt og að ekki sé hægt að fyrirgefa allt. Hann segist heldur ekki ætla að óska eftir reynslulausn heldur sé undir það búinn að eyða ævinni í fangelsi.

Viðtalið í Expressen

Anna Lindh.
Anna Lindh.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Félagsstarf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, jóg...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna í Skóga- o...
Útkeyrsla - lagermaður
Lager/útkeyrsla
Útkeyrsla/ Lagermaður óskast E...
Uppboð
Tilkynningar
UPPBOÐ Boðnir verða up...