Írena á land í New Jersey

Miðja fellibylsins Írenu kom á land í New Jersey í morgun. Meðalvindhraði þar er nú 33 metrar á sekúndu. Óveðursmiðjan er nú 160 km suðsuðvestur af New York-borg og færist í norðnorðaustur á 30 km hraða. Mjög hvasst var orðið í New York snemma í morgun.

Fellibylurinn er gríðarlega víðáttumikill eða rúmir 800 kílómetrar og því gætir áhrifa hans á afar stóru svæði.

Tilkynnt hefur verið um hvirfilbyli í Maryland og Delaware og varað hefur verið við slíkum byljum í New York og Philadelphiu.

Eftir að jaðar óveðursins náði New York-borg í nótt var tveimur kajakræðurum bjargað úr briminu við Staten Island eftir að bátum þeirra hvolfdi. Michael Bloomberg borgarstjóri frétti af þessu og lét færa ræðarana til sín þar sem hann las þeim pistilinn fyrir að setja eigið líf og líf björgunarmanna í ónauðsynlega hættu.

Fellibylurinn Irena séður frá alþjóðlegu geimstöðinni í dag.
Fellibylurinn Irena séður frá alþjóðlegu geimstöðinni í dag.
Afar fáir eru á ferli í New York.
Afar fáir eru á ferli í New York. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina