Sendinefnd ESB og AGS yfirgefur Grikkland

Tíð mótmæli hafa verið í Grikklandi vegna efnahagsvanda landsins.
Tíð mótmæli hafa verið í Grikklandi vegna efnahagsvanda landsins. Reuters

Sameiginleg sendinefnd Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Grikklands sem gera átti úttekt á stöðu efnahagsmála í landinu hefur hætt störfum án þess að senda frá sér skýrslu. Þá gerir nefndin ekki ráð fyrir að snúa aftur til landsins í september eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að fréttir af brotthvarfi nefndarinnar frá Grikklandi komi á sama tíma og fréttir berist af því að grísk stjórnvöld séu aftur að missa tökin á skuldavanda landsins.

Samkvæmt skýrslu frá sérstakri stofnun sem sett var á laggirnar til þess að fylgjast með fjármálum Grikklands og er óháð grískum stjórnvöldum halda skuldir gríska ríkisins áfram að hækka og eru þegar farnar upp fyrir þau mörk sem gert var ráð fyrir á þessu ári þótt enn séu fjórir mánuðir eftir af árinu.

Fjármálaráðherra Grikklands, Evangelos Venizelos, gagnrýndi skýrsluna harðlega í fjölmiðlum í gær og sagði stofnunina ekki búa yfir nægjanlegri hæfni og þekkingu til þess að leggja mat á efnahagsmál landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert