Rússavinir fengu flest atkvæði

Andris Berzins, forseti Lettlands (t.h.), var í hópi fyrstu kjósenda ...
Andris Berzins, forseti Lettlands (t.h.), var í hópi fyrstu kjósenda sem mættu á kjörstað í morgun. Reuters

Stjórnmálaflokkur sem hlynntur er Rússum, Samhljómsflokkurinn, fékk flest atkvæði í þingkosningum sem fram fóru í Lettlandi í dag og hlaut 28,71% atkvæða, samkvæmt útgönguspám.

Sem kunnugt er var Eystrasaltsríkið áður hluti af Sovétríkjunum.

Stjórnmálaskýrendur sögðu ólíklegt að Samhljómsflokkurinn, sem sigraði, fari í samstarf við Endurreisnarflokk Zatlers sem berst gegn spillingu. Foringi hans er Valdis Zatler, fyrrverandi forseti, en flokkur hans fékk 20,31% atkvæða samkvæmt spá Fréttaþjónustu Eystrasalts.

Einingarflokkur Valdis Dombrovski, sitjandi forsætisráðherra, var í þriðja sæti með 19,16% atkvæða. Þjóðarbandalagið, sem þykir þjóðernissinnað, fékk 16,13% atkvæða og Bandalag græningja og bænda var í fjórða sæti með 10,61%.

Ivars Ijabs, stjórnmálafræðingur við Háskóla Lettlands, taldi líklegast að mynduð verði þriggja flokka ríkisstjórn með þátttöku Endurreisnarflokks Zatlers, Einingarflokksins og Þjóðarbandalagsins.

Hinn nýkjörni forseti Lettlands, Andriz Berzins, var í hópi þeirra fyrstu sem mættu á kjörstað í morgun. Hann hefur sagt að hann muni hefja stjórnarmyndunarviðræður 28. september næstkomandi. Reiknað er með að endanleg úrslit kosninganna liggi fyrir síðdegis á morgun.

Kjósandi veltir fyrir sér valkostum á kjörstað.
Kjósandi veltir fyrir sér valkostum á kjörstað. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina