Gagnrýnir aftöku al-Awlaki

Anwar al-Awlaki
Anwar al-Awlaki

Gary Johnson, fyrrum fylkisstjóri Nýju Mexíkó, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann gagnrýnir fyrirskipun Obama að láta taka Anwar al-Awlaki af lífi. Þrátt fyrir að Al-Awlaki hafi verið einn helsti talsmaður al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna á Arabíuskaganum og hvatt reglulega til ofbeldisverka gegn Vesturlöndum var hann bandarískur ríkisborgari og sem slíkur hefði hann átt að njóta verndar bandarísku stjórnarskrárinnar að mati Johnsons.

Í yfirlýsingu Gary Johnsons sem sækist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni Bandaríkjanna fyrir næstu kosningar er gagnrýnt það sem Johnson kallar að stytta sér leið yfir stjórnarskrána.

„Ef grundvallarréttindi bandarískra ríkisborgara, hvort sem það er friðhelgi einkalífs eða réttur hvers manns til lífs er brotinn þá má rökstyðja það að hryðjuverkamenn hafi nú þegar unnið baráttuna.“

Johnson bætir því við að Bandaríkjamenn verði að spyrja sig erfiðu spurninganna sem vakni í kjölfar aftöku sem þessarar og hvort heppilegt sé að forsetinn hafi vald til slíkrar ákvörðunartöku.

mbl.is