Fox segir af sér

Liam Fox
Liam Fox Reuters

Liam Fox, varnarmálaráðherra Bretlands, hefur sagt af sér vegna tengsla við kaupsýslumanninn Adam Werritty, sem fékk aðgang að málum breska ríkisins án þess að gegna opinberu embætti.

Werritty er grunaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og fyrir að hafa, áður en Fox tók sæti í ríkisstjórn, notað skrifstofu á vegum þingsins til að safna peningum í sjóð sem hann er í forsvari fyrir.

Í afsagnarbréfi sem Fox ritaði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kemur fram að hann hafi fyrir mistök ekki gert nægjanlega skýran greinarmun milli persónulegra hagsmuna og starfa sinna sem ráðherra.

Fox bað þingmenn afsökunar fyrir nokkrum dögum en málið þykir mikið hneyksli. Hann heldur því fram að hann hafi aldrei teflt þjóðaröryggi í tvísýnu.

Í yfirlýsingu sem Fox sendi frá sér fyrr í vikunni kemur fram að hann hafi hitt Werritty, sem er kaupsýslumaður, 22 sinnum í varnarmálaráðuneytinu og 18 sinnum á ferðum sínum erlendis. Þetta eru fleiri skipti en áður hefur komið fram opinberlega.

Werritty var svaramaður Fox árið 2005 og fyrrverandi meðleigjandi hans. Þá gekk Werritty með nafnspjöld sem á stóð að hann væri ráðgjafi Liam Fox.

mbl.is

Bloggað um fréttina