Mismunun víða mótmælt

Mótmælin sem kennd eru við Wall Street í New York, Occupy Wall Street, hafa breiðst um allan heim. Mikil mótmæli hafa verið í þeim borgum Asíu sem liggja að Kyrrahafi. Mótmælendur skella skuldinni vegna mismununar á alþjóðlega fjármálakerfið.

Sem kunnugt er hefur verið boðað til tveggja mótmælafunda í miðborg Reykjavíkur í dag og hefjast þeir báðir klukkan 15.00.

Um 2.000 manns mótmæltu mismunun í launagreiðslum fyrir utan seðlabanka Ástralíu í Sidney. Fólkið kvaðst ætla að setjast að fyrir framan bankann um ótilgreindan tíma.

„Við erum ekki einungis að tala um breytingu á ríkisstjórninni. Ég held að það sem allir hér tala um sé heildarbreyting á því hvernig allt kerfið virkar. Hvernig peningar stjórna öllu stjórnmálalífinu. Stórfyrirtækin, þetta eina prósent sem við tölum um, námafélögin, bankarnir og svo framvegis. Þeir ráða bókstaflega öllu stjórnmálakerfinu líka.

Báðir stærstu stjórnmálaflokkarnir í Ástralíu eru í raun bara þjónar fjármagns stóru peninganna og svoleiðis,“ sagði Josh Lees, sem skipulagði mótmælin í Sidney.

Hundruð mótmælenda gengu um götur í Tókýó í Japan. Þeir beindu reiði sinni að raforkufyrirtækum og japönsku ríkisstjórninni og sögðu að þeim hefði mistekist að ná tökum á kjarnorkuslysinu í Fukushima.

„Ég er augljóslega á móti félagslegri mismunun og fátækt eins og Occupy Wall Street mótmælendurnir og ég hef áhuga á málinu. En það liggur þyngra á okkur að vera á móti kjarnorkunýtingu og samvinnu við Kyrrahaf (Trans-Pacific partnership) og það er aðal boðskaður okkar,“ sagði Yoshikazu Koga, fertugur kennari í Japan.

Meira en hundrað mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan Taipei 101 bygginguna í höfuðborg Taívan. Þeir kyrjuðu slagorð og héldu á mótmælaspjöldum. Mótmælendurnir kröfðust þess að ríkisstjórnin skoðaði innviði kapítalismans.

„Ég verð að vinna í 12-16 klukkustundir heima hvern einasta dag. Þótt það virðist vera afslappandi að vinna heima þá byrjar vinnudagurinn um leið og ég vakna og varir þar til ég fer að sofa en samt lifi ég ekki góðu lífi af þessari vinnu. Ég get ekki framfleytt fjölskyldu og get ekki látið mér koma til hugar að ganga í hjónaband eða eignast börn,“ sagði Wu Ming-Hsuan, 32 ára heimavinnandi skrifstofumaður.

Mótmælendur sögðust vera óánægðir með að efnahagsvöxtur landsins kæmi einungis stórfyrirtækjum til góða en millistéttin réði varla við síhækkandi kostnað vegna húsnæðis, menntunar og heilsugæslu.

Mótmælafundir eru boðaðir víða um heim í dag. Auk Reykjavíkur má nefna London, Frankfurt, Washington og New York.

Heimasíða mótmælanna 15. október um allan heim

mbl.is

Bloggað um fréttina