Segist hafa skotið Gaddafi

Mynd úr myndskeiði, sem birt var í dag af Gaddafi ...
Mynd úr myndskeiði, sem birt var í dag af Gaddafi eftir að uppreisnarmenn náðu honum á sitt vald. Reuters

Ungur líbískurn stríðsmaður segir í myndskeiði, sem gengur nú um netið, að hann hafi skotið Múammar Gaddafi, fyrrum leiðtoga landsins, til bana í gær. Til sönnunar þess sýnir hann giftingarhring úr gulli en nafnið á annarri eiginkonu Gaddafis er grafið í hringinn.

„Ég skaut hann tvisvar. Önnur kúlan lenti í handarkrikanum, hin í höfðinu. Hann dó ekki strax. Það tók hálftíma," segir ungi maðurinn, sem heitir Sanad Sadek Ureibi.

Frásögn unga mannsins er ekki í samræmi við yfirlýsingar þjóðarráðs uppreisnarmanna, sem hélt því fram, að Gaddafi hefði lent á milli þegar liðsmenn hans og uppreisnarmenn lentu í skotbardaga utan við borgina Sirte í gær. Þá segir Ureibi að Gaddafi hafi ekki falið sig í skolpröri heldur hafi hann verið á gangi í Sirte með hópi barna.  

„Hann var með hatt. Við þekktum hann á hárinu og maður frá Misrata sagði við mig: Þetta er Gaddafi, við náum honum." 

Ureibi segir að þeir hafi gripið í handleggi Gaddafis. „Ég sló til hans. Hann sagði við mig: Þú ert sonur minn. Ég sló hann aftur. Hann sagði: Ég er faðir þinn. Þá greip ég í hárið á honum og snéri hann niður." 

Hann segist hafa ætlað að flytja Gaddafi með sér til Benghazi en þá hafi aðrir hermenn frá Misrata komið þarna að og viljað flytja hann þangað. Ureibi segist þá hafa ákveðið að skjóta Gaddafi.  

Lík Gaddafis var flutt til Misrata í gær og var í dag haft til sýnis í kæligeymslu í verslunarmiðstöð utan við borgina. Langar biðraðir fólks, sem vildi skoða líkið, myndaðist við kælinn. Upphaflega stóð til að greftra Gaddafi í dag í samræmi við hefðir múslima en af því varð ekki þar sem ágreiningur er um það hvar eigi að jarðsetja hann.

mbl.is