Tyrkir fá aðstoð víða að

Alþjóðasamfélagið brást snarlega við þegar Tyrkir báðu um aðstoð eftir að kröftugur jarðskjálfti reið yfir austurhluta landsins síðastliðinn sunnudag. Tyrkir biðluðu til 30 þjóða um neyðaraðstoð, en áður höfðu stjórnvöld lýst því yfir að þau væru fullfær um að fást við afleiðingarnar án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar.

Vöruflutningavél kom frá Úkraínu, hlaðin ýmsum hjálpargögnum handa fórnarlömbum náttúruhamfaranna. Einna mest er þörfin fyrir skýli, en vetur gengur nú í garð á þessum slóðum og snjóa er að vænta á komandi dögum.

Margir þeirra, sem lifðu af skjálftann, eru uggandi um sinn hag, margir hafast við í tjöldum, en þau duga skammt í vetrarhörkum.

Björgunarsveitir leita enn í rústum húsa í von um að finna fólk á lífi. Líkurnar á því minnka með hverjum klukkutímanum sem líður og hafa margir sakað ríkisstjórn landsins um lélegt skipulag björgunaraðgerða og að bregðast of seint við neyð fólksins.

Flestir þeirra, sem búa á þessum slóðum, eru Kúrdar, sem eru minnihlutahópur í landinu og starfrækja öfluga aðskilnaðarhreyfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert