Evran dæmd til að falla

Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í viðtali á CNBC-sjónvarpsstöðinni að evrusvæðið væri dæmt til þess að falla vegna mikils munar á Norður- og Suður-Evrópu.

„Í upphafið, við stofnun evrunnar árið 1999, var gert ráð fyrir því að hagkerfi Suður-Evrópu innan evrusvæðisins myndu haga sér eins og þau í Norður-Evrópu, að Ítalía myndi haga sér eins og Þýskaland. Sú varð ekki raunin heldur fór það svo að Norður-Evrópa fór að greiða fyrir umframneyslu Suður-Evrópu,“ segir Greenspan.

Greenspan spáir því að þegar kreppan tekur að dýpka hætti flæði verðmæta frá Norður- til Suður-Evrópu og þá minnki um leið lífsgæði fólks í Suður-Evrópu.

Að hans mati hefði verið heppilegra ef þau hagkerfi Evrópu sem eru líkari hvert öðru hefðu staðið að sameiginlegu myntsvæði.

mbl.is