Frambjóðandi sakaður um áreitni

Herman Cain, einn þeirra sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til …
Herman Cain, einn þeirra sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs. Reuters

Herman Cain, einn þeirra sem orðaðir hafa verið við forsetaframboð Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, á nú í vök að verjast eftir að tvær konur sökuðu hann um kynferðislega áreitni.

Cain hefur notið mikils fylgis meðal Repúblikana og hefur vermt efsta sætið í skoðanakönnunum ásamt Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóra í Massachusetts. Hann neitar sök og segir ásakanirnar settar fram í þeim tilgangi að klekkja á sér.

Hann er sagður hafa áreitt konurnar þegar hann var í forsvari fyrir landssamtök veitingastaða í Bandaríkjunum á árunum 1996 - 1999, en hann var framkvæmdastjóri pítsukeðjunnar Godfather´s Pizza. 

Komið hefur fram að samtökin greiddu annarri konunni 45.000 Bandaríkjadali fyrir að falla frá kærum á hendur Cains. Áður hafði dagblaðið The New York Times greint frá því að önnur kona hefði fengið samsvarandi greiðslu vegna áreitni frá Cain.

Svör hans þykja ekki trúverðug og hefur hann orðið margsaga.

Talsmenn hans segja að framboð hans hafi lítt skaðast og að fjárframlög streymi inn, þrátt fyrir ásakanirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina