Sjakalinn myrti 2000 manns

Sjakalinn, Ilich Ramirez Sanchez.
Sjakalinn, Ilich Ramirez Sanchez. Reuters

Einn frægasti launmorðingi allra tíma, Sjakalinn, mun fara fyrir rétt í Frakklandi á morgun. Hann gumaði af því í viðtali við dagblaðið El Nacional að hafa framið meira en 100 árásir sem hefðu kostað yfir 2000 mannslíf.

Spurður af því hversu marga saklausa vegfarendur hann hefði drepið í þessum árásum svaraði Sjakalinn: „Þeir voru afar fáir. Samkvæmt útreikningum mínum eru þeir færri en 10%, eða um 200 manns.“

Sjakalinn, stundum nefndur Carlos Sjakali, heitir réttu nafni Ilich Ramirez Sanchez, hann er 62 ára og er frá Venesúela. Hann var félagi í PFLP hreyfingunni í Palestínu og hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi í Frakklandi fyrir morð á tveimur frönskum lögregluþjónum og uppljóstrara árið 1975.

Heimurinn varð Sjakalans fyrst var þegar hann, ásamt félögum sínum í PFLP, braust inn í fundarherbergi í Vín árið 1975, þar sem leiðtogar OPEC ríkjanna funduðu. PFLP tók 11 þeirra sem gísla.

Réttarhöldin á morgun snúast um árásir sem hann er talinn hafa gert 1982 og 1983 til að frelsa tvo félaga sína úr haldi í París, en þau höfðu ráðgert að ráðast á sendiráð Kúvaít þar í borg. Annar þeirra, sem Sjakalinn frelsaði, var eiginkona hans.

Í viðtalinu við El Nacional sagðist Sjakalinn geta vel við unað, því að allar árásir hans hefðu tekist vel. Spurður að því hvort hann teldi sig hafa gert einhver mistök um ævina svaraði hann því til að glæpir hans væru smávægilegir og fullyrti að Fidel Castro, fyrrum forseti Kúbu, hefði myrt fleiri manns en hann.

„Hryðjuverk munu verða til eins lengi og heimsvaldasinnar stjórna heiminum. Ég er óvinur hryðjuverkasinna á borð við Bandaríkin og Ísrael, “sagði Sjakalinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina