Spenna milli Ísraela og Írana

Shimon Peres, forseti Ísraels.
Shimon Peres, forseti Ísraels. Reuters

Shimon Peres, forseti Ísraelsk, varaði við því síðla gærkvölds að líkurnar á því að Ísraelar gerðu árás á Íran ykjust stöðugt. „Leyniþjónustur fjölmargra landa fylgjast með Írönum og hafa varað við því að Íranir hafi líklega kjarnavopn undir höndum,“sagði Peres við ísraelsku sjónvarpsstöðina Channel 2. 

„Við verðum að hafa samstarf við þessi lönd og samræmast um aðgerðir gegn Íran,“ bætti hann við.

Skýrslu Kjarnorkueftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IAEA, er beðið, en búist er við því að þar skýrist línur varðandi kjarnavopnaeign Írana. Áætlað er að skýrslan komi út þann 8. nóvember. Íranir neita öllum vangaveltum um að þeir búi yfir kjarnavopnum og segjast eingöngu nota kjarnorku til orkuframleiðslu og í lækningaskyni.

Miklar vangaveltur hafa verið þessa efnis í Ísrael að undanförnu. Síðastliðinn miðvikudag skýrði ísraelska dagblaðið Haaretz frá því að forsætisráðherra landsins, Benjamin Netanyahu og Ehud Barak varnarmálaráðherra hefðu farið fram á stuðning þingsins um að gera árás á Íran.

Blaðið skýrði ennfremur frá því að bandarísk yfirvöld hefðu farið fram á það við Ísraela að ef þeir gripu til aðgerða gegn Íran, þá yrðu þeir áður að skýra bandarískum stjórnvöldum frá því. 

Umfangsmikil heræfing var haldin í landinu í síðustu viku og þykir það benda til þess að átaka sé að vænta. Yfirvöld segja þó að engin tengsl séu þar á milli.

Utanríkisráðherra Írans, Ali Akbar Salehi, sagði í fimmtudaginn að Íranar væru búnir undir það versta. Hann varaði Bandaríkin við afskiptum.

mbl.is

Bloggað um fréttina