Bossi vill að Berlusconi segi af sér

Silvio Berlusconi ásamt Umberto Bossi.
Silvio Berlusconi ásamt Umberto Bossi. Reuters

Helsti bandamaður Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, hefur hvatt ráðherrann til að segja af sér áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu á þinginu í dag um mikilvægar aðgerðir í efnahagsmálum.

Umberto Bossi, sem er leiðtogi Norðursambandsins, segir að Angelino Alfano, sem er fyrrverandi dómsmálaráðherra Ítalíu, eigi að taka við af Berlusconi.

Staða forsætisráðherrans á þinginu hefur veikst mikið. Margir þingmenn hafa snúið bakinu við Berlusconi eða sagt að þeir muni gera uppreisn.

Þar til nú hefur Berlusconi ávallt haldið því fram að hann njóti nægilega mikils stuðnings á þinginu sem geri sér kleift að halda að gegna embætti forsætisráðherra. Þá hefur hann neitað því að hann ætli að segja af sér.

„Við höfum beðið forsætisráðherrann um að stíga til hliðar,“ sagði Bossi við blaðamenn í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina