Nýfæddu barni kastað út um glugga

Brandenborgarhliðið í Berlín.
Brandenborgarhliðið í Berlín.

Nýfæddum dreng var kastað út um glugga á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi í Berlín í Þýskalandi í dag. Nágrannar fundu lík drengsins í garðinum við húsið en rannsóknir benda til þess að barnið hafi verið á lífi þegar því var kastað út um gluggann.

Þýskir fjölmiðlar segja að drengurinn hafi verið vafinn inn í handklæði og sorppoka en lögregla hefur ekki staðfest það.

Þegar lögregla kom á staðinn fundust blóðugir hlutir framan við dyr á fimmtu hæð húss í Charlottenburg, úthverfi Berlínar. Lögregla réðist til inngöngu og flutti síðan fertuga konu, sem talin er hafa eignast drenginn, 15 ára dóttur hennar og 44 ára gamlan karlmann á lögreglustöð.

Maðurinn var í kjölfarið handtekinn en hann hefur áður verið dæmdur fyrir ofbeldi gegn börnum. 

Lögregla segir að konan hafi fætt barnið í íbúðinni í nótt. Ekki hefur verið upplýst að fullu hvað gerðist í kjölfarið. 

Nokkur mál hafa komið upp nýlega í Þýskalandi þar sem nýfædd börn voru myrt. Í desember í fyrra kastaði ung kona í Berlín nýfæddu barni sínu út um glugga í snjóskafl þar sem það varð úti. Konan hlaut í júní skilorðsbundinn dóm.

Árið 2007 var nýfæddu stúlkubarni kastað út um glugga á 10. hæð í fjölbýlishúsi. Móðirin fékk í kjölfarið 3 ára og 9 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert