Sjö ára sakaður um kynferðisbrot

Drengurinn var sakaður um kynferðisbrot fyrir að leika læknisleik með …
Drengurinn var sakaður um kynferðisbrot fyrir að leika læknisleik með fimm ára stúlku. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Foreldrar sjö ára gamals drengs í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum hafa höfðað mál gegn saksóknara fyrir að hafa sakað drenginn um kynferðisbrot. Brot drengsins var að fara í „læknisleik“ með 5 ára stúlku. Þarf hann að skrá sig sem kynferðisbrotamann þegar hann verður sjálfráða.

Drengurinn, sem er misþroska, var sex ára gamall þegar atvikið átti sér stað. Hefur hann greinst með streituröskun sem læknar rekja til málaferlana gegn honum. Fara foreldrar hans fram á skaðabætur að jafnvirði tæpra 1,5 milljarða króna.

Stúlkan sem drengurinn á að hafa brotið á er dóttir þekkts stjórnmálamanns í sýslunni þar sem foreldrar drengsins búa og halda þeir fram að það hafi verið ástæðan fyrir að saksóknarar ákváðu að saka drenginn um kynferðisbrot. Að því er kemur fram í kæru foreldranna þarf sonur þeirra að skrá sig sem kynferðisbrotamann þegar hann verður 18 ára gamall. Vefsíðan Madison.com í Wisconsin-ríki segir frá þessu.

Samkvæmt lögum Wisconsin-ríkis er drengurinn of ungur til að vera ákærður fyrir glæp eða að mál verði höfðuð gegn honum á grundvelli laga um unga afbrotamenn. Þess í stað var hann sakaður um kynferðisbrot gegn stúlkunni í kvörtun sem foreldrar eða yfirvöld beita yfirleitt til þess að benda á börn yngri en 10 ára sem þurfa hjálp til að láta af óviðeigandi hegðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina