Ítalir mótmæla einkavæðingu

Nokkur hundruð manns söfnuðust saman í Róm í dag til að krefjast þess að nýr forsætisráðherra Ítalíu félli frá áætlunum um einkavæðingu ýmissa ríkisstofnanna, þar á meðal vatnsbóla landsins. Mótmælendurnir héldu á táknrænum bláum blöðrum.

Í júní síðastliðnum greiddi meirihluti Ítala atkvæði gegn einkavæðingu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mótmælendur segja að ríkisstjórnin, bæri núverandi og fyrrverandi, virði ekki vilja þeirra 27 milljóna sem höfnuðu einkavæðingarferlinu með atkvæði sínu.

Ríkisstjórn Ítalíu lítur svo á að einkavæðing ýmissa ríkisstofnanna sé nauðsynleg til að endurfjármagna og bæta ýmsa þjónustu við þjóðina. Andstæðingar telja hinsvegar að verðlag muni hækka. Nýskipuð ríkisstjórn Mario Monti er undir miklum þrýstingi enda efnahagsástandið afar viðkvæmt á Ítalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina