Jólageitin í Gävle brann í nótt

Þessi hafur stendur við IKEA. Úr safni.
Þessi hafur stendur við IKEA. Úr safni.

Jólahafurinn í Gävle í Svíþjóð naut ekki tilverunnar lengi þetta árið. Um þrjúleytið í nótt var kveikt í hafrinum þar sem hann stóð á hallartorginu í Gävle, að sögn fréttavefjar GD.se.

Eje Berglund, stjórnarformaður hafursnefndarinnar, sagði að þetta væru dapurleg tíðindi. Margir verði bæði sárir og reiðir við þessa fregn.

Jólahafurinn, sem var úr tré og hálmi, fuðraði upp og var brunnin til ösku á aðeins fimm mínútum. Slökkvilið kom á staðinn en varð að láta sér nægja að slökkva í glæðunum.

Ráðgert hafði verið að klæða hafurinn klakabrynju honum til varnar þetta árið, en hlýindi komu í veg fyrir þá ráðagerð. Nefndarmenn í hafursnefndinni naga sig nú í handarbökin yfir að hafa ekki haft næga gæslu við jólageitina.

Ekkert stendur eftir nema trégrindin og óvíst hvort hægt verður að nota hana áfram. Grindin verður látin standa sviðin og nakin yfir helgina og síðan tekin niður í næstu viku, að sögn Eje Berglund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert