Óttast ekki upplausn ESB

Meirihluti almennings í Þýskalandi telur að ESB muni ekki líða …
Meirihluti almennings í Þýskalandi telur að ESB muni ekki líða undir lok. Reuters

Meirihluti Þjóðverja telur að Evrópusambandið muni ekki liðast í sundur þrátt fyrir að Bretar hafi neitað að undirrita nýjan samning um skatta- og fjármál. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem var birt í dag fyrir dagblaðið Bild am Sonntag.

Sex af hverjum 10 segjast vera þeirrar skoðunar að ESB muni standa af sér storminn, en 33% aðspurðra telja aftur á móti að sambandið muni leysast upp.

Ákvörðun Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, hefur hins vegar komið illa við nokkra þýska stjórnmálamenn, m.a. Martin Schulz sem verður næsti forseti Evrópuþingsins. Hann segist efast um að Bretland verði áfram hluti af ESB til langs tíma litið.

Efnahagsráðherra Þýskalands, Philipp Rösler, segir að bresk stjórnvöld muni brátt átta sig á því að vegurinn að stöðugra sambandi sé besta lausnin.

Þátttakendur í könnunni voru 1.000 og var hún framkvæmd sl. fimmtudag og föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert