Sakaður um ítrekaða áreitni

Mark Hurd fyrrverandi framkvæmdastjóri Hewlett Packard.
Mark Hurd fyrrverandi framkvæmdastjóri Hewlett Packard.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Hewlett-Packard, Mark Hurd, beitti konu sem starfaði hjá fyrirtækinu ítrekað kynferðislegri áreitni að því er fram kemur í bréfi frá lögfræðingi hennar. Hurd lét af störfum árið 2010 vegna ásakana um kynferðislega áreitni á vinnustaðnum.

Dómstóll í Delaware í Bandaríkjunum fyrirskipaði að leynd yrði aflétt af bréfinu, sem er átta blaðsíður að lengd, en það var sent í júní 2010. Þar kemur meðal annars fram að hann hafi krafist þess af Jodie Fisher að hún veitti honum kynferðislega þjónustu gegn því að fá vinnu hjá HP.

Lögmenn Hurds, sem er kvæntur, segja að trúnaður hafi átt að ríkja um innihald bréfsins auk þess sem ýmislegt rangt komi fram í bréfinu. Fisher segir sjálf að ekki sé allt rétt sem fram komi í bréfinu sem er ritað af lögfræðingi hennar, Gloriu Allred.

Eftir að bréfið var sent á HP setti fyrirtækið af stað innri rannsókn og komust utanaðkomandi ráðgjafar sem rannsökuðu málið, að þeirri niðurstöðu að Hurd hefði ekki brotið innanhúsreglur sem gilda um kynferðislega áreitni en hefði engu að síður ekki hegðað sér í samræmi við „viðmið HP um hegðun í viðskiptum“.

Hann neyddist til þess að segja af sér í ágúst 2010 en var ráðinn skömmu síðar til starfa hjá keppinautnum Oracle, samkvæmt frétt BBC.

Fisher starfaði hjá HP í tvö ár og sá um að skipuleggja uppákomur á vegum fyrirtækisins. Hún er fyrrverandi leikkona og lék meðal annars í bláum myndum auk þess að hafa tekið þátt í raunveruleikaþætti. Í bréfinu kemur meðal annars fram að hann hafi boðið henni upp á hótelherbergi og beðið hana að eyða nóttinni þar með honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert