Vill byggja upp réttlátt efnahagskerfi

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, mun flytja árlega stefnuræðu sína í Bandaríkjaþingi í nótt að íslenskum tíma. Notar Obama stefnuræðuna til að leggja grunninn að kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Í úrdrætti úr ræðunni, sem dreift hefur verið til blaðamanna, segist Obama heita því að byggja upp efnahagskerfi þar sem allir njóti sama réttar og þeir ríku greiði réttlátan skerf til samfélagsins.

„Annað hvort verðum við að sætta okkur við að í landinu fækki þeim sem gengur mjög vel á sama tíma og þeim fjölgar sem varla skrimta. Eða við getum endurbyggt efnahagskerfið til að allir fái tækifæri, allir leggi sitt að mörkum og allir þurfi að undirgangast sömu leikreglurnar," segir í ræðu Obamas. 

Obama segist einnig ætla að sneiða hjá hindrunum Bandaríkjaþings og ekki leyfa repúblikönum að endurskapa þá efnahagsstefnu, sem leitt hafi til versta samdráttarskeiðs frá keppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar.

Forsetinn gaf til kynna í dag, að hann muni á ný reyna að sannfæra Bandaríkjaþing um að fallast á áætlun, sem kaupsýslumaðurinn Warren Buffett hefur kynnt um að nýr skattur verði lagður á ríkustu Bandaríkjamennina. Repúblikanar vilja ekki heyra á þessar hugmyndir minnst.  

Michelle Obama, forsetafrú, hefur boðið Debbie Bosanek, einkaritara Buffetts, í þingsalinn í kvöld til að hlýða á ræðuna. Bosanek komst í heimsfréttirnar þegar Buffett sagði frá því að hún borgaði hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en hann. Buffett er þriðji ríkasti maður heims.  

Barack Obama í Hvíta húsinu í kvöld.
Barack Obama í Hvíta húsinu í kvöld. Reuters
Bandaríska þinghúsið í Washington.
Bandaríska þinghúsið í Washington. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert