Stofnandi PIP ákærður

Jean-Claude Mas, stofnandi franska fyrirtækisins Poly Implant Prothese (PIP)
Jean-Claude Mas, stofnandi franska fyrirtækisins Poly Implant Prothese (PIP) Reuters

Jean-Claude Mas, stofnandi franska fyrirtækisins Poly Implant Prothese (PIP) var í dag ákærður af frönskum saksóknara, að sögn lögmanns hans. Mas hefur verið látinn laus gegn 100 þúsund evra tryggingu.

Mas, sem er 72 ára að aldri, var í dag handtekinn í Suður-Frakklandi í morgun en fyrirtæki hans er talið hafa notað iðnaðar-sílikon í brjóstapúða. Yfir 400 þúsund konur í heiminum eru taldar hafa fengið slíka púða.

Poly Implant Prothese framleiddi sílikonbrjóstafyllingarnar sem voru teknar af markaði í mars 2010 þegar upp komst að í þær var notað iðnaðarsílikon, sem er m.a. notað í rúmdýnur, í stað læknasílikons. Fyrirtækið fór á hausinn. Talið er að um 400.000 konur í heiminum hafi fengið PIP-fyllingar. Mas var eftirlýstur af Interpol vegna manndrápsákæru í Frakklandi. Mas hefur viðurkennt að hafa notað „heimatilbúið“ sílikongel vegna þess að það var ódýrara, en neitar að það hafi verið iðnaðarsílikon. Svo virðist sem fyrirtækið hafi blekkt evrópska eftirlitsmenn í þrettán ár með því að skipa starfsmönnum sínum að fela ósamþykkta sílikonið þegar þeir heimsóttu verksmiðjuna.

Áhyggjur kviknuðu þegar franskur lýtalæknir tók eftir að fyllingarnar vildu frekar rofna en aðrar fyllingar. Frönsk yfirvöld hafa síðan sagt roftíðnina í þeim geta verið allt að 5%. Í Bretlandi segja yfirvöld hættuna miklu minni eða um 1-2%, þrátt fyrir að ein stofa þar í landi haldi því fram að hún geti verið allt að 7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert