Þjóðverjar vildu ekki sektir

Angela Merkel
Angela Merkel Reuters

Árið 2003 fóru Þjóðverjar og Frakkar fram úr leyfilegum hallarekstri innan evrusvæðisins en beittu áhrifum sínum í sambandinu til að kæfa niður mótmæli forystumanna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Árið 2012 er svo komið að Þjóðverjar vilja refsa öðrum fyrir hallarekstur.

Fjallað er um þessi umskipti í afstöðu Þjóðverja til 3% reglunnar á evrusvæðinu í fréttaskýringu á vef breska útvarpsins, BBC.

Romano Prodi var þá forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og evruríkin voru 15 en ekki 17 eins og í dag. Evran var innleidd sem gjaldmiðill í á öðrum tug ríkja á nýársdag árið 1999 og var því ekki komin löng reynsla af henni þegar hallareksturinn var tekinn til umræðu 2003.

Segir Prodi svo frá fundinum í samtali við BBC að hann hafi vakið máls á fjárlagahallanum á fundi með fjármálaráðherrum evruríkjanna 15 en verið sagt að „halda sér saman“.

Samkvæmt ýtrustu reglum hafi Prodi og framkvæmdastjórnin haft lagalega heimild til að beita framúrskeyrsluríkin fésektum. Fjármálaráðherrarnir kusu hins vegar að ganga gegn reglunum sem tryggja áttu stöðugleika á evrusvæðinu.

Vissu að fórna þyrfti fullveldinu

Breska útvarpið ræðir einnig við Frakkann Jacques Lafitte en hann var sérfræðingur í franska fjármálaráðuneytinu sem kom að undirbúningi evrusamstarfsins á tíunda áratug síðustu aldar.

Segir Lafitte að hann og aðrir sérfræðingar í undirbúningsvinnunni hafi vitað að einhvers konar miðstýring þyrfti að koma til á evrusvæðinu til að tryggja stöðugleika.

Hins vegar hafi ekki mátt nefna það opinberlega enda hefði slík stýring falið í sér tilfærslu á fullveldi frá aðildarríkjum myntsamstarfsins.

„Við vissum þetta innst inni ... en gátum ekki sagt það opinberlega.“

Stórveldunum ekki refsað

Þá er rætt við Peter Doukas, fyrrverandi aðstoðarfjármálaráðherra Grikklands, um áhrifin sem það hafði á hin evruríkin þegar ofangreind andstaða Þjóðverja og Frakka við fésektir barst í tal.

„Sú skoðun var útbreidd að ef stóru strákarnir fara ekki að reglunum og beita sjálfa sig aga munu þeir verða afslappaðri í að framfylgja samningnum [gagnvart okkar]. Ég meina, það getur enginn beitt Þýskaland og Frakkland sektum. Þau eru stórveldi Evrópu. Svo þau munu ekki fara að reglunum,“ sagði Doukas í lauslegri þýðingu.

Lýkur greinarhöfundur á vef BBC orðum sínum með því að minna á að sú sýn að færa Þýskaland nær Evrópu við sameiningu Austur-Þýskalands og Vestur-Þýskalands fyrir um tveimur áratugum sé að snúast upp í andhverfu sína. Nú sé verið að færa Evrópu nær Þýskalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
Sumar í Biskupstungum...
Eigum laust sumarhús frá 10. ágúst, 2-3 dagar í senn.. Falleg hús með heitum pot...
Til sölu nokkrar fágætar bækur
Sjálfstætt fólk 1-2, frumútgáfur með kápum Ilions-kvæði 1856 Flateyjarbók,...
Ég skal selja fyrir þig!
Fasteignir óskast á söluskrá....