Skortur á menntuðum kennurum í ESB

Við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/JPlogan

Ríki Evrópusambandsins eru farin að finna fyrir skorti á menntuðum kennurum í vaxandi mæli samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com. Fram kemur að staðan í þeim efnum fari stöðugt versnandi og að framkvæmdastjórn sambandsins hafi séð ástæðu til þess að vekja sérstaka athygli á þessum vanda.

Í nýrri skýrslu á vegum framkvæmdastjórnarinnar sem gefin var út síðastliðinn föstudag kemur meðal annars fram að 40% þýskra 15 ára nemenda hafi ekki menntaðan raungreinakennara og að um 30% hollenskra nemenda á sama aldri hafi hvorki menntaðan kennara í vísindum né í stærðfræði. Þá segir í skýrslunni að 40% 15 ára nemenda í frönskumælandi hluta Belgíu séu ekki með menntaða stærðfræðikennara.

Fram kemur að vandamálið byggist ekki síst á hækkandi meðalaldri kennara en yfir 30% kennara í Þýskalandi, Bretlandi, Hollandi, Belgíu og á Ítalíu sé að komast á eftirlaunaaldur. Þá er nær helmingur grunnskólakennara í Þýskalandi, Svíþjóð og á Ítalíu yfir fimmtugt. Fáir vinna lengur en sextugt. Á sama tíma hafa sífellt færri útskrifaðir nemendur úr háskóla áhuga á að leggja fyrir sig kennarastörf þrátt fyrir að laun í geiranum hafi hækkað. Þetta á sérstaklega við um Portúgal, Ungverjaland og Belgíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina