Munu ekki betla í Brussel

Jan Kees de Jager fjármálaráðherra Hollands.
Jan Kees de Jager fjármálaráðherra Hollands. Reuters

Jan Kees de Jager, fjármálaráherra Hollands, sagði í dag að Hollendingar myndu ekki koma með betlistaf í hendi til Evrópusambandsins, en skuldir Hollendinga munu að öllum líkindum fara talsvert yfir viðmið ESB í ár.

„Ég mun ekki betla í Brussel,“ sagði de Jager í viðtali við hollenska ríkisútvarpið. „Ég mun fara þangað og bera höfuðið hátt eða sleppa því ella.“

Hollendingar hafa í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á að skuldaviðmið ESB væru virt og þeir hafa gagnrýnt evruríki sem hafa lent í fjárhagserfiðleikum, eins og til dæmis Grikki.

Hollendingar höfðu reyndar gert ráð fyrir að skuldir ríkisins yrðu hærri en viðmið ESB, sem eru 3% af þjóðarframleiðslu. Búist hafði verið við því að þær yrðu 4,1%, en allt stefnir í að þær verði 4,5%.

Þetta 3% viðmið er hluti af Maastricht-sáttmálanum. Hollendingum hefur ekki tekist að halda sig réttum megin við það frá árinu 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert