Kyrrahafið nógu stórt fyrir alla

Eyjan Pagasa, eða Von, er hluti af Spratly eyjaklasanum sem …
Eyjan Pagasa, eða Von, er hluti af Spratly eyjaklasanum sem deilt er um eignarhald á í Suður-Kínahafi. Reuters

Sendiherra Kína á Filippseyjum reyndi í dag að lægja öldurnar og draga úr óttanum sem farið hefur vaxandi um að gripið verði til vopna í Kyrrahafi, þar sem löndin tvö eiga í harðri deilu um hafsvæðið.

Filippseyingar gagnrýna Kínverja fyrir aðgangshörku á svæðinu og hafa brugðist við með því að kalla eftir því að hernaðarlegt bandalag við Bandaríkin verði styrkt enn frekar. Í næsta mánuði verður stór heræfing á vegum Bandaríkjahers og Filippseyja á eyjunum Luzon og Palawan, en sú síðarnefnda er við mörk Suður-Kínahafs.

Kínverski sendiherrann, Ma Keqing, sagði hinsvegar í dag að hernaðarbröltið væri innanríkismál Filippseyja og að Kínverjar séu opnir fyrir samvinnu á umdeildum svæðum í Kínahafi. „Kyrrahafið er nógu stórt fyrir Bandaríkin og Kína. Við vonum að Bandaríkjamenn sýni gott fordæmi að því að tryggja meiri frið og stöðugleika á þessu svæði," sagði sendiherrann við blaðamenn. 

Kína og Filippseyjar, ásamt Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei, greinir á um hver á tilkall til stórra hafsvæða í Suður-Kínahafi. Hafsvæðinu eru talin rík af bæði gasi og olíu og um áratugaskeið hefur verið talið að þar sé yfirvofandi hætta á að átök brjótist út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert