Vildi ekki vera í Afganistan

Afganskir menn í rútu þar sem lík eins fórnarlamba hermannsins …
Afganskir menn í rútu þar sem lík eins fórnarlamba hermannsins liggur. Reuter

Bandarískur hermaður, sem sakaður er um að hafa myrt 16 afganska þorpsbúa, var í uppnámi vegna alvarlegra meiðsla, sem samstarfsmaður hans varð fyrir daginn fyrir fjöldamorðin. Þetta kom fram í máli lögmanns hermannsins í gær.

Hermaðurinn, sem er 38 ára gamall og er í haldi í Kúveit, var jafnframt ósáttur við að hafa verið sendur til Afganistan í ljósi þess að hann hafði farið í þrjár ferðir til Íraks og honum hafði áður verið tjáð, að ekki yrði óskað eftir þjónustu hans að nýju.

Hann er jafnframt tveggja barna faðir. Fjölskylda hans hefur nú flutt í herstöð í Seattle í Bandaríkjunum af ótta við hefndaraðgerðir fyrir fjöldamorðin.

Talið er að hermaðurinn - rómaður fyrir störf sín í þágu hersins í gegnum tíðina - hafi yfirgefið herstöð í suðurhluta Kandahar-héraðs fyrir dögun á sunnudag og myrt fólkið, þar á meðal mörg börn, í tveimur þorpum í nágrenninu.

„Við höfum verið látnir vita af því að á þessari smáu herstöð, sem hann var staddur á, hafði einhver slasast mjög alvarlega daginn fyrir atburðinn, sem hafði mikil áhrif á alla hermennina þar,“ sagði John Henry Browne, lögmaður, við fréttamenn í Seattle í gær.

Hann neitaði að veita frekari upplýsingar en samkvæmt fréttaflutningi missti vinur og félagi hermannsins fótlegg í sprengjutilræði.

Í umfjöllun The New York Times sagði að hermaðurinn væri frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna og hann hefði neytt áfengis á tíma árásanna, jafnframt tekist á við mikla streitu í ljósi fjórðu herfarar sinnar og að hjónabandserfiðleikar hefðu hvílt þungt á honum.

„Þegar þetta allt saman brýst fram, leiðir það af sér blöndu af streitu, áfengi og vandamálum í heimilislífi - hann bara missti vitið,“ sagði ónefndur yfirmaður í hernum við The New York Times.

Lögmaðurinn efaðist hins vegar um efni umfjöllunarinnar og sagði að engir hjónabandserfiðleikar hefðu verið til staðar. „Ég veit fyrir víst að það er alrangt. Og ég hef jafnframt engar upplýsingar fengið um að áfengi hafi komið við sögu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert