Óttast að finna ekki flugritana

Björgunarmenn á toppi Kebnekaise fjalls þar sem flugvélin fórst.
Björgunarmenn á toppi Kebnekaise fjalls þar sem flugvélin fórst. AP

Óttast er að flugritar Herkúles-flugvélarinnar sem fórst í Svíþjóð á fimmtudag hafi skemmst en mikil leit fer nú fram að þeim við Kebnekaise-fjall þar sem vélin fórst.

Flugritarnir geyma annars vegar upplýsingar um flughæð, hraða flugvélarinnar og fleira og hins vegar upptökur af samtölum flugmannanna. Þessar upplýsingar eru lykilatriði við rannsókn á því hvers vegna vélin fórst.

Flugvélin virðist hafa flogið beint inn í hamravegg fjallsins, skammt neðan við fjallstoppinn. Við það splundraðist hún. Björgunarmenn hafa fundið fátt heillegt úr vélinni.

Espen Barth Eide, varnarmálaráðherra Noregs, segir að myndir af slysstað sýni að flugvélin hafi splundrast þegar hún fórst. Það sé því ástæða til að óttast að svörtu kassarnir (flugritarnir) hafi eyðilagst eða a.m.k. skemmst. Það kunni því að verða erfitt að fá svör við öllum spurningum um það sem gerðist.

Flugmenn vélarinnar höfðu síðast samband við flugturn kl. 14.45 á fimmtudag. Ellefu mínútum síðar hvarf hún af ratsjá. Áhöfnin hafði ekki veitt neinar upplýsingar um að vandamál hefðu komið upp í fluginu.

Neyðarsendir vélarinnar fór aldrei í gang og það olli því að það tók björgunarmenn talsverðan tíma að finna flakið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert