Jarðskjálfti upp á 8,7 stig

Fólk í Aceh-héraði flýr strandsvæði. Miklar umferðarteppur hafa myndast á …
Fólk í Aceh-héraði flýr strandsvæði. Miklar umferðarteppur hafa myndast á götum og ringulreið ríkir. AFP

Jarðskjálfti sem mældist 8,7 stig varð utan við eyjuna Súmötru í Indónesíu í morgun. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út á stóru svæði við Indlandshafið. Fyrstu mælingar sýndu að skjálftinn væri enn  harðari eða 8,9 stig.

Ekki er enn ljóst hvort skjálftinn olli flóðbylgju. Rúmlega kl. 10 voru enn engar vísbendingar um flóðbylgju við Indónesíu. Er það haft eftir forseta landsins í frétt AFP fréttastofunnar.

Algengt er að skjálftar verði á þessu svæði. Árið 2004 varð stór flóðbylgja í kjölfar jarðskjálfta í Indlandshafi sem kostaði um 170 þúsund mannslíf í Aceh-héraði á Súmötru, þar sem skjálftinn varð hvað harðastur nú. Sá skjálfti mældist 9,1-9,3 stig. Yfir 220.000 manns létust í þeim skjálfta.

Bandaríska jarðfræðistofnunin segir að skjálftinn hafi átt upptök sín 33 km undir hafsbotni, um 495 km undan ströndum Banda Aceh, höfuðborgar héraðsins á Súmötru. Skjálftinn fannst m.a. í Tælandi, Singapúr, Bangladesh, Malasíu og í Suður-Indlandi.

Samkvæmt fréttastofu Reuters eru íbúar að flýja strandsvæði.

Miðstöð sem metur áhættu á flóðbylgju segir að stærð skjálftans sé slík að hann geti sett af stað mikla flóðbylgju sem geti haft áhrif á öllu Indlandshafi.

Ríkisstjórnir Indlands, Sri Lanka, Malasíu og Taílands hafa beðið fólk á strandsvæðum að yfirgefa heimili sín. Á Tælandi hefur skipun um rýmingu verið gefin út á Andaman-ströndinni, á vinsælum ferðamannastað. Hafa yfirvöld hvatt fólk til að fara sem lengst frá ströndinni. Flautur sem vara við flóðbylgju og settar voru upp í kjölfar hamfaranna árið 2004, hafa í dag verið notaðar til að vara íbúa við, m.a. í Phuket í Tælandi þar sem margir fórust árið 2004.

Mikil ringulreið ríkir í borginni Banda Aceh en þar skalf jörð mikið vegna skjálftans. Metro-sjónvarpsstöðin þar í borg segir að umferðaröngþveiti hafi skapast víða. Rafmagnslaust er á svæðinu.

Í frétt á vef BBC segir sjónarvottur að jörð hafi skolfið í um fimm mínútur í höfuðborginni Jakarta í Indónesíu.

Skjálftinn varð kl. 8.38 að íslenskum tíma eða 14.38 að staðartíma.

Þekkir þú til? Ef þú ert á áhrifasvæði skjálftans eða þekkir einhvern sem þar er staddur, vinsamlega sendu póst á netfrett@mbl.is

mbl.is
Loka