Sjaldgæf sýn inn í Norður-Kóreu

Fréttamönnum frá Reuters fréttastofunni var á dögunum hleypt inn í Norður-Kóreu og gefið sjaldséð tækifæri til að mynda. Norður-Kórea er eitt af einangruðustu ríkjum heims og sem fyrr reyna stjórnvöld að stýra gætilega þeirri ímynd sem gefin er af landinu.

Meðal þess sem fréttateymi Reuters fékk að fylgjast með voru hátíðahöld í tilefni 100 ára afmælis Kim Il-Sung, þar sem þúsundir hermanna marseruðu um götur höfuðborgarinnar Pyongyang í tilþrifamikilli sýningu. Allt er til þess gert að sýna hernaðarmátt hinar „sterku og velmegandi þjóðar“ undir stjórn nýs leiðtoga hennar, Kim Jong-Un. 

Hamingja og velmegun íbúa undirstrikuð

Max Duncan, blaðamaður Retuers segir ekki hjá því komið að velta því fyrir sér hvað norður-kóreska þjóðin, 23 milljónir manna sem margar lifi við hungurmörk, hugsi með sér þegar þau sjá hina glæstu sýningu í sjónvarpinu. „Eru þau stolt? Eða finnst þeim þau vera fangar? Eru þau ef til vill alls ekki snortin af hátíðahöldunum, sem hafa verið með óbreyttum hætti í áratugi. Fyrir okkur er hið minnsta mjög spennandi að vera hér og finna fyrir titringnum frá skriðdrekunum undir fótunum og heyra öskrin í hermönnunum þegar þeir skunda hjá.“

Um kvöldið var fréttamönnunum boðið að fylgjast með veisluhöldum þar sem þúsundir uppáklæddra ungmenna dönsuðu og sungu um Kim Il-sung. Gera má ráð fyrir að danssporin hafi verið þaulæfð í vinnuhópum. Allt er til þess gert, að sögn Reuters, að undirstrika hamingju og velmegun íbúa Pyongyang.

Munaðarlaus börn við hungurmörk

Í sveitum landsins blasir hinsvegar annar veruleiki við. Þegar blaðamaður Reuters ferðaðist þar um í október síðastliðnum ásamt samtökunum Læknar án landamæra fann hann fyrir alvarlega vannærð börn á sjúkrahúsum og munaðarleysingjahælum. Læknarnir sögðu að stór hluti barnanna muni deyja fáist ekki frekari matvælaaðstoð og hjálpargögn. 

Börnin sungu fyrir fréttamennina vinsælt norður-kóreskt barnalag, sem kallast Engan þarf að öfunda. Textinn er lítið dulinn áróður og börnin syngja um að þau „þurfi engan í heiminum að öfunda“.

Einlæg gestrisni fylgdarmanna

Ekkert slíkt var hinsvegar sjáanleg í afmælisheimsókninni til Pyonyang, sem var vandlega stýrt af stjórnvöldum. Fréttamaður Reuters segir að fylgdarmenn þeirra, skipaðir af yfirvöldum, hafi verið uppgefnir í lok ferðar og eflaust fegnir að sjá að baki útlendingunum. 

„En þrátt fyrir óhjákvæmilega spennu á ferðalaginnu var gestrisni þeirra og skopskyn einlægt og stundum snart það okkur. Að sjálfsögðu getum við ekki hringt í þá eða sent þeim tölvupóst, ekki einu sinni handskrifað bréf. En ef og þegar Norður-Kórea verður raunverulega sterk og velmegandi, þá fáum við kannski að sjá þá aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina