„Þetta getur ekki haldið svona áfram“

Staðfest hefur verið að a.m.k. 30 hafi látist, þar af 27 óbreyttir borgarar, í átökum í Sýrlandi í dag. Frakkar segja friðarumleitanir Sameinuðu þjóðanna við það að fara út um þúfur. Alþjóðasamfélagið krefst þess að eftirlitsmönnum verði hleypt inn í landið.

Öryggisráð SÞ samþykkti að 300 mann lið eftirlitsmanna yrði sent til landsins til að kanna ástand mála og fylgjast með átökunum. Utanríkisráðherra Frakka, Alain Juppe, segir að tafir þar á séu óviðunandi. 

„Sýrlensk stjórnvöld standa ekki við neitt af því sem þau hafa heitið. Kúgunin í landinu heldur áfram. Þetta getur ekki haldið svona áfram,“ sagði Juppe við fréttamenn í dag eftir að hafa hitt sýrlenska uppreisnarmenn.

Núna er um 15 eftirlitsmenn að störfum í landinu.

Um 300 manns hafa látið lífið í átökum í landinu eftir að stjórnvöld samþykktu vopnahlé að tillögu Kofis Annans, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna og sérlegs erindreka í friðarumleitunum í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert