Mannfall í mótmælum í Egyptalandi

Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælunum.
Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælunum. AFP

Tveir eru látnir og um 130 slasaðir í miklum mótmælum í Egyptalandi í dag. Öryggislögregla hefur notað táragas og vatnsbyssur í átökum við mótmælendur.

Herstjórnin, sem fer með völd í landinu, setti á útgöngubann í kvöld. Dregið hefur úr mótmælum eftir því sem liðið hefur á kvöldið, en margir eru þó enn á Tahrir-torgi í miðborg Kaíró.

Á miðvikudag urðu líka mikil mótmæli og þá létust um 20 manns.

Mótmælendur hafa sakað herstjórnina um að skipuleggja árásir á mótmælendur. Heilbrigðisstarfsfólk hlúði að fjölda fólks sem slasaðist fyrir utan við byggingu varnarmálaráðuneytisins.  Öryggislögreglan hafði varað fólk við að mótmæla við ráðuneytið, en mótmælendur hunsuðu þessa viðvörun.

Eftir þrjár vikur fara fram forsetakosningar í Egyptalandi sem verða fyrstu forsetakosningar frá því að Hosni Mubarak neyddist til að segja af sér embætti snemma á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert