Aukið upplýsingaflæði í Norður-Kóreu

Við aðallestarstöðin í Pyongyang í apríl 2012.
Við aðallestarstöðin í Pyongyang í apríl 2012. AFP

Íbúar Norður-Kóreu hafa meiri aðgang en nokkru sinni fyrr að erlendum miðlum, þar á meðal útvarpi, sjónvarpi og dvd diskum. Í nýrri skýrslu kemur fram að stjórnvöld hafi ekki getað viðhaldið „algjörri einokun" yfir upplýsingaflæði og einnig að skilningur íbúa á heiminum sé að breytast.

Norður-Kórea er sagt það land heims þar sem fjölmiðlafrelsi er minnst. Bandarísk stjórnvöld létu kanna hvernig þróunin hefur verið undanfarin tvö ár og byggja niðurstöðurnar á skoðanakönnunum meðal 250 Norður-Kóreumanna, fyrst og fremst flóttamanna, auk nokkurra ferðamanna.

Meirihluti íbúa Norður-Kóreu hefur enn engan beinan aðgang að erlendum fjölmiðlum, en þeim fjölgar þó sem það hafa. Auk þess sýna niðurstöðurnar að Norður-Kóreubúar séu síður hræddir við að deila upplýsingum sem þeir komast yfir með öðrum.

Notkun erlendra dvd-diska hefur sérstaklega aukist í Norður-Kóreu samkvæmt rannsókninni, sem bandarísk stjórnvöld létu framkvæma. Fyrst og fremst er þar um að ræða dramamyndir frá Suður-Kóreu sem hefur verið smyglað yfir landamærin frá Kína. Tæpur helmingur svarenda sagðist hafa horft á erlendar dvd-myndir í Norður-Kóreu.

„Þegar þú kemur höndum yfir hágæðaframleiðslu af suðurkóresku efni, og þar með innsýn í stað sem þú hefur verið heillaður af allt þitt líf vegna þess að áróður Norður-Kóreu snýst svo mikið um Suður-Kóreu, þá hefur það mjög mikil áhrif,“ hefur BBC eftir Nat Kretchun, einum höfundi skýrslunnar.

Þá kemur fram í skýrslunni að ýmis tækjabúnaður, s.s. usb-lyklar og ólöglegir kínverskir farsímar, berst nú yfir landamærin frá Kína í talsverðu magni og er sérstaklega notaður af efri stéttunum. Aukið aðgengi að erlendum fréttum og upplýsingum hefur, að sögn skýrslunnar, leitt til þess að Norður-Kóreubúar líta nú stjórnvöld landsins gagnrýnni augum en áður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert