Elgur veldur uppnámi í Osló

Elgur í náttúrunni.
Elgur í náttúrunni.

Elgur hljóp inn á hraðbraut við Osló í Noregi í morgun og olli töfum á umferð. Hann var svo felldur inni í lestargöngum að sögn lögreglu.

„Elgurinn var skotinn inni í lestargöngunum,“ sagði Tor Groettum, talsmaður lögreglunnar í Osló við fréttastofu AFP í dag. Atburðarásin stóð yfir í um tvær klukkustundir.

Hann sagði jafnframt að elgurinn hefði hlaupið inn á E18 Mosseveien-hraðbrautina, sem liggur frá Osló í átt til Svíþjóðar, um klukkan 9:30 í morgun og haldið ferð sinni rólega áfram eftir veginum.

„Hann hljóp heldur rólega, en elgur á veginum getur alltaf valdið miklum skemmdum.“ Groettum bætti jafnframt við að enginn hefði slasast.

Elgurinn tók stefnuna frá veginum og inn í helstu járnbrautagöng Oslóar og hljóp framhjá aðalbrautarstöðinni í austurhluta borgarinnar, í átt að brautarstöð við Þjóðleikhúsið í Osló.

Allar lestir til og frá höfuðborginni voru stöðvaðar á meðan lögregla reyndi að fella elginn í flóknu samgöngukerfi borgarinnar. Samkvæmt fréttaflutningi skutu veiðimenn, sem slegist höfðu í för með slökkviliðsmönnum, elginn skammt frá Þjóðleikhúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert